580 skjálftar og 5 sprengingar

Yfirlit yfir skjálfta á Íslandi vikuna 29. nóvember til 5. …
Yfirlit yfir skjálfta á Íslandi vikuna 29. nóvember til 5. desember 2010. mbl.is/www.vedur.is

Vikuna 29. nóvember til 5. desember sl. komu 580 jarðskjálftar fram á mælum Veðurstofunnar og 5 sprengingar. Stærsti skjálftinn var upp á 2,7 stig við Herðubreið en töluverð virkni var á þeim slóðum.

Eins og fram hefur komið á mbl.is hefur töluverð virkni verið á Arnarvatnsheiði og við Tvídægru í ofanverðum Borgarfirði. Umrædda viku mældust nærri 60 skjálftar, sá stærsti 2,3 stig. Upptök skjálftanna núna eru á svipuðum slóðum og þeirra sem voru í byrjun febrúar sl.

Sprengingarnar fimm eru ekki staðsettar eða skýrðar nánar í yfirliti Veðurstofunnar en væntanlega er átt við sprengingar á vegum jarðvinnuverktaka sem hafa þann kraft til að koma fram á jarðskálftamælum.

Tveir jarðskjálftar mældust í sunnanverðum Eyjafjallajökli. Undir Mýrdalsjökli mældust 17 jarðskjálftar. Tveir skjálftar voru undir Kötluöskjunni, fjórir undir Sandfellsjökli og hinir við Goðabungu. Stærstu skjálftarnir voru um 2,2 að stærð og áttu upptök undir Goðabungu.

Undir Vatnajökli mældust 14 jarðskjálftar. Stærsti jarðskjálftinn var 2,6 að stærð átti upptök norðaustur af Bárðarbungu. Tveir jarðskjálftar voru við Grímsvötn, fjórir við Esjufjöll, einn á Lokahrygg og hinir voru norðaustur af Bárðarbungu, segir í yfirliti Veðurstofunnar.

Nokkur virkni á Krýsuvíkursvæðinu

Viðvarandi jarðskjálftavirkni var á Krýsuvíkursvæðinu og alls mældust þar um 260 jarðskjálftar. Stærsti jarðskjálftinn mældist 2,5 að stærð með upptök um 1,5 km vestur af Krýsuvíkurskólanum þann 1. desember. Nær allir aðrir jarðskjálftar á svæðinu voru minni en 2 að stærð.

Úti fyrir Norðurlandi mældust skjálftar aðallega vestan við Flatey og inn í Öxarfirði. Fjórir smáskjálftar mældust við Kröflu og Þeistareyki.

Fjórir jarðskjálftar áttu upptök á norðanverðum Reykjaneshryggnum. Þeir voru á stærðarbilinu 1,4 til 1,9. Fáeinir jarðskjálftar voru í Flóanum, við Hestvatn og víðar, að því er fram kemur í yfirliti Gunnars B. Guðmundssonar jarðfræðings á Veðurstofunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert