Ekki verið að auka álögur á eldsneyti

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að stjórnvöld séu ekki að auka almennar álögur á bensín og olíu í frumvarpi sem liggi nú fyrir Alþingi. Heldur sé verið að láta gjöld, sem fyrir séu, fylgja verðlagi.

„Það er ekki hægt að kalla það nýjar hækkanir eða sérstakar álögur, að þessi gjöld fylgi verðlagi,“ sagði Steingrímur þegar hann svaraði fyrirspurn Birgis Ármannssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi.

Birgir spurði hvort það væri rétt og skynsamlegt að auka opinberar álögur á eldsneyti, nú þegar stór hluti landsmanna ætti í vandræðum vegna kaupmáttarskerðingar og vegna ýmissa áfalla.

„Það er ekki verið að hækka álögur á bensín og olíu, nema að því slepptu þó sem kolefnisgjaldið hefur þar áhrif. En það er óveruleg hækkun. Leggst á allt jarðefnaeldsneyti í landinu, ekki bara á bílaflotann. Þar erum við að fara mjög hóflega fram. Færa okkur úr tæplega 50% af verði losunarkvóta innan ESB upp í 75%,“ segir Steingrímur. 

Hann segir ennfremur að það komi sér vissulega vel að verðbólgan hafi lækkað og verðbólguspáin sé hagstæðari en menn hafi gert ráð fyrir.

„Það hlýtur líka að gleðja háttvirta þingmenn að Seðlabankinn lækkaði myndarlega vexti í morgun, sem er til marks um það að við erum á réttri leið í efnahagsmálum. Allt leggst það nú með okkur að hér er kominn meiri stöðugleiki og verðlag hefur þróast með réttum hætti og vextir hafa lækkað mjög myndarlega,“ segir Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert