Hækkanir vekja furðu

mbl.is/Friðrik

Verð á bensíni og dísilolíu fer nú hratt hækkandi hér á landi og svipað er upp á teningnum í grannlöndunum, spáð er hækkun í Noregi eftir næstu helgi.

Margt veldur þessari þróun, einkum hækkanir á heimsmarkaði en einnig gengisbreytingar. Vegna kuldanna í Evrópu er nú meiri spurn eftir dísilolíu, einnig hafa verkföllin í Frakklandi í haust haft áhrif á birgðastöðu.

Olís hækkaði eldsneytisverð í gær um fimm krónur á lítrann, sjálfsafgreiðsluverð fór í 208 krónur á 95 oktana bensíni og dísilolíu. Skeljungur fylgdi í kjölfarið og hækkaði sitt verð í 209 krónur. Önnur félög höfðu ekki hækkað þegar þetta var ritað. Undrun vekur hve hækkunin er mikil og snögg.

„Mér finnst þeir fara svolítið bratt í þetta,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda [FÍB]. „Vissulega hafa markaðir verið að fara eitthvað upp undanfarna daga en breytingin var ekki neitt mikil í gær eða fyrradag [mánudag og sunnudag]. Breytingin í íslenskum krónum milli daga var kannski um 50 aurar.“

Stjórnvöld boða í fjárlagafrumvarpinu miklar hækkanir á vörugjöldum og kolefnisgjaldi eftir áramótin og margföldunaráhrif af slíkum ráðstöfunum eru mikil, segir Runólfur, FÍB reiknar með að afleiðingin verði hækkun á bensínlítra upp á 5.50 kr.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert