Lögreglan á Selfossi er með til rannsóknar líkamsárásarmál sem kom upp í Sunnulækjarskóla í hádeginu í gær. Þar réðust tveir 15 ára piltar, nemar í Vallaskóla, að jafnaldra sínum á göngum skólans. Hlaut sá minniháttar meiðsl en kennari slasaðist sem árásarmennirnir hlupu niður á leið frá vettvangi.
Lögreglunni barst tilkynning í hádeginu í gær um að piltarnir væru mættir í Sunnulækjarskóla. Réðust þeir þar að jafnaldra sínum og virtust eiga eitthvað óuppgert við hann. Fórnarlambið hlaut minniháttar áverka en á leið sinni útúr skólanum rákust árásarmennirnir á kennara sem datt í gólfið og hlaut heilahristing á áverka á hendi og mjöðm.
Hlupu piltarnir þá út úr skólanum en ekki það langt að lögreglan náði öðrum þeirra á skólalóðinni og hljóp hinn uppi. Foreldrum piltanna var gert viðvart, sem og barnaverndaryfirvöldum á Selfossi, en að sögn lögreglunnar hafa piltarnir ekki komið við sögu hennar áður. Lögreglan segir að til allrar hamingju séu mál af þessu tagi ekki tíð á Selfossi og í raun fá fordæmi fyrir.
Árásin er í rannsókn, þó að hún teljist að hluta upplýst, en lögregla segir það vera ákæruvaldsins að leggja mat á framhaldið. Er sáttameðferð ekki talin útilokuð.