Óvissa á Suðurnesjum

Varnarmálastofnun
Varnarmálastofnun mbl.is/RAX

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur óskað eftir því að málefni starfsmanna Varnarmálastofnunar og verkefna hennar verði rædd á fundi þingmanna Suðurkjördæmis, en eins og mörgum er kunnugt verður stofnunin lögð niður um áramótin. Hún gerir einnig ráð fyrir að málið verði tekið upp á vettvangi utanríkismálanefndar.

Eygló telur að öfug leið hafi verið farin þegar lögum um varnarmál var breytt: „Það var tekin ákvörðun um að leggja stofnunina niður áður en það var búið að ákveða hvað ætti að gera við verkefni hennar.“

Utanríkisráðherra skipaði verkefnisstjórn til að fara með stjórn Varnarmálastofnunar og bera ábyrgð á daglegum rekstri hennar til áramóta. Að sögn Eyglóar ríkir mikil óvissa hjá starfsmönnum Varnarmálastofnunar því ágreiningur sé innan verkefnastjórnarinnar um hvað eigi að gera við verkefnin. Starfsmenn Varnarmálastofnunar hafa bæði áhyggjur af eigin framtíð og framtíð varnarmála á Íslandi. Hún segir þessa óvissu ekki vera í anda yfirlýsingar stjórnvalda um sérstakar aðgerðir vegna erfiðs atvinnuástands á Suðurnesjum. 

Brýnt að óvissunni sé eytt hið fyrsta

Guðmundur B. Helgason, formaður verkefnastjórnar, segir málið vera á ákvörðunarstigi og vonast hann til að framhaldið skýrist á allra næstu dögum. Guðmundur segir skiptar skoðanir vera innan stjórnarinnar um málaflokkinn en hann vill ekki lýsa því sem ágreiningi. „Þetta er bara verkefni sem þarf að leiða til lykta og við sem að þessum stöndum erum að gera okkar besta til þess. Þetta er ástand sem skapar óvissu fyrir starfsmennina og því mjög brýnt að henni sé eytt hið fyrsta. Þetta eru lögbundin verkefni sem Varnarmálastofnun fer með og það hefur legið ljóst fyrir að þau verkefni verða unnin áfram.“

Aðspurður hvort störfin gætu hugsanlega flust frá Suðurnesjunum segir Guðmundur: „Þetta er aðstöðubundin starfsemi og það er sérútbúin aðstaða á Keflavíkurflugvelli fyrir hana. Stjórnstöð Íslenska loftvarnarkerfisins er þar í sérútbúinni byggingu svo sú starfsemi er ekkert að fara.“


Eygló Harðardóttir
Eygló Harðardóttir mbl.is
Guðmundur B. Helgason
Guðmundur B. Helgason mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert