Telja að Glitnir hafi ekki uppfyllt skilyrði starfsleyfis

Glitnir
Glitnir mbl.is/Friðrik Tryggvason

Bókhald Glitnis var í molum fyrir hrun og gaf falska mynd af stöðu bankans, samkvæmt franskri rannsókn sem unnin var fyrir embætti sérstaks saksóknara. Í árslok 2007 uppfyllti bankinn ekki þau skilyrði sem honum voru sett í starfsleyfi. Þetta kom fram í kvöldfréttum Sjónvarpsins en DV fjallaði einnig um skýrsluna sem var unnin að frumkvæði Evu Joly af franska fyrirtækinu Cofisys.

Í skýrslunni kemur fram að bókhald og ársreikningar Glitnis síðustu misserin fyrir hrun hafi gefið kolranga mynd af raunverulegri stöðu bankans. Ýmsar lykilupplýsingar var aðeins að finna á excel skjölum, en ekki inni í bókhaldskerfi bankans, áhætta vegna lána var vanmetin og tengdir aðilar, ekki síst eigendur bankans, voru ekki skilgreindir sem slíkir.

Reikningar Glitnis voru endurskoðaðir af PricewaterhouseCoopers, samkvæmt frétt RÚV í kvöld.

Niðurstaða Frakkanna er að endurskoðendurnir hafi brugðist og vinnubrögðin ekki verið í takti við alþjóðlega staðla. Þeir hafi haft skjöl undir höndum um raunverulega stöðu og ekki hafi verið kallað eftir upplýsingum sem augljóslega vantaði.

Samkvæmt þeirri útgáfu af bókhaldinu sem PriceWaterhouseCoopers lagði nafn sitt við, var reksturinn á góðu róli og eigið féð vel yfir lögboðnum 8% mörkum. Sé dæmið hins vegar reiknað upp, eins og Frakkarnir telja að eigi að gera það, kemur í ljós að það var blekking. Eigið féð var komið niður í 4,5% í árslok 2007. 

Ítarlega var fjallað um málefni Glitnis í DV í dag og í Kastljósi í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert