Segja að Landsbankinn hafi staðið mun verr en bókhald sagði

Norskir sérfræðingar á sviði endurskoðunar, Helge Skogseth Berg og Arne Jørgen Rønningen, telja Landsbankann hafa staðið mun verr en ársreikningur bankans í lok árs 2007 gaf til kynna og að endurskoðendur frá PwC, ytri endurskoðanda bankans, hafi vitað af því.

Þetta er meðal þess sem fjallað verður um í Viðskiptablaðinu á morgun. Bæði DV og RÚV hafa í dag fjallað um málefni Glitnis í dag og RÚV mun einnig fjalla um stöðu Landsbankans á morgun.

Fyrirtækjum sem tengd hafi verið Björgólfsfeðgum, stærstu eigendum bankans, m.a. Icelandic Group og Eimskip, hafi verið haldið á lífi með blekkingum og yfirdráttarlánum, segir í Viðskiptablaðinu á morgun.

Þetta kemur fram í skýrslu sem norsku sérfræðingarnir, sem eru starfsmenn Lynx Advokatfirma DA, unnu fyrir embætti sérstaks saksóknara um Landsbankann. Henni var skilað til embættisins 2. nóvember sl. og er að miklu leyti byggð á gögnum sem haldlögð voru í húsleit hjá PwC 1. október í fyrra. Á sama tíma var leitað í húsakynnum KPMG og Deloitte.

Viðskiptablaðið boðar ítarlega umfjöllun um skýrslur frönsku og norsku sérfræðinganna á morgun um íslensku bankana, Glitni og Landsbankann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert