Þingfundi var frestað rétt fyrir klukkan þrjú eftir að mótmælendur trufluðu þingstörf. Hróp voru gerð að þingmönnum frá áhorfendapöllunum og stóðu mótmælin yfir í nokkrar mínútur. Í framhaldinu gerði forseti Alþingis hlé á þingfundinum á meðan húsið var rýmt.
Þingfundur hófst síðan að nýju, en fyrir luktum dyrum. Að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis, er ekki um lokað þinghald að ræða. „Þingpallar voru rýmdir, en það er ekki það sama og lokaður þingfundur. Það er hægt að fylgjast með þinghaldinu í sjónvarpinu og á vef Alþingis.“
Helgi segir að ekki hafi verið hægt að halda áfram fundi vegna hrópa og kalla áhorfenda. „Við báðum fólk um að fara, sem það gerði án nokkurra átaka. Þarna voru nokkrir sem við könnumst við af fyrri kynnum, en hér eiga allir jafnan aðgang. Við förum ekki í manngreinarálit. En fólk þarf að fara að reglum Alþingis.“
Að sögn Helga kom lögregla á staðinn og fóru þeir sem hæst létu út í fylgd hennar.
Hópur fólks hefur safnast saman fyrir utan þinghúsið til að minnast þess að tvö ár eru liðin frá uppþotunum.