Barnaheill skora á stjórnvöld

Börn í Laugarnesskóla undirbúa komu hátíðarinnar með því að mála …
Börn í Laugarnesskóla undirbúa komu hátíðarinnar með því að mála piparkökur. Morgunblaðið/Golli

Barnaheill – Save the Children á Íslandi skora á ríkisstjórnina og sveitarfélög að standa vörð um réttindi barna á tímum niðurskurður. Það megi umfram allt ekki skerða þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra á sviði menntamála, heilbrigðis- og félagsþjónustu. Slíkur niðurskurður sé óafturkræfar sem og áhrif hans á þau börn sem fyrir honum verða.

Í tilkynningu frá Barnaheillum segir að jafnræði til náms sé einn af hornsteinum íslensks samfélags og þegar þrengi að, sé brýnt að hlúa að menntuninni. Sterk efnahagsleg rök hnígi að því að skerða alls ekki skólagöngu barna og ungmenna heldur auka við hana á krepputímum ef þess sé nokkur kostur.

„Á undanförnum tveimur árum hefur verið verulegur niðurskurður í grunnskólum landsins. Samkvæmt könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga á hagræðingaraðgerðum sveitarfélaga í skóla- og fræðslumálum, sem gerð var haustið 2009, er mestur niðurskurður í forfallakennslu og stuðningskennslu, á kaupum til kennslugagna, til vettvangsferða auk þess sem samkennsla hefur verið aukin. Þessi niðurskurður hefur aukið verulega álag á kennara og annað starfsfólk skólanna.  Nú eru uppi hugmyndir hjá sveitarfélögum um frekari niðurskurð sem felast í því að skerða nám barna um allt að fimm tíma á viku, eða sem nemur allt að fimm vikum á ári. Barnaheill- Save the Children á Íslandi telja þessar hugmyndir óásættanlegar. Þær munu skerða menntun barnanna og eru óafturkræfar. Þetta er skaði sem verður ekki bættur, þó tímafjöldi verði aukinn síðar. Hópur barna í íslensku samfélagi mun þá hafa fengið minni menntun en önnur börn," segir m.a. í tilkynningu Barnaheilla.

Hafa samtökin þungar áhyggjur af þeim niðurskurði í skólakerfinu sem nú þegar hefur komið til framkvæmda. Hvetja þau sveitarfélög til að standa vörð um menntun barnanna, sérkennslu, aðstoð við heimanám og stuðning við börn innflytjenda.

„Grunnskólinn er grunnþjónusta sem ber að standa vörð um. Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem íslensk stjórnvöld hafa staðfest, skulu öll börn njóta sömu réttinda, óháð stöðu þeirra og foreldra þeirra. Öll börn eiga meðfæddan rétt til lífs og þroska og öll börn eiga rétt á endurgjaldslausri grunnmenntun. Öll börn eiga rétt á góðri heilsu, umönnun og vernd. Áframhaldandi niðurskurður í menntakerfi, heilbrigðis- og félagsþjónustu getur haft alvarleg áhrif á stöðu fjölda barna í nútíð og framtíð,“ segja samtökin ennfremur og hvetja ríkisstjórnina og sveitarfélög til að forgangsraða upp á nýtt og setja öll börn þessa lands í fyrsta sæti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert