Drög að frumvarpi verið gerð

mbl.is/Ómar

Drög að frumvarpi til laga hafa verið gerð á grundvelli hins nýja Icesave-samkomulags sem kynnt hefur verið forsvarsmönnnum stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Þetta kemur fram í samantekt samninganefndarinnar.

Meginefni þess er fólgið í heimild til að staðfesta hina nýju samninga við bresk og hollensk stjórnvöld og áréttað að heimilt verði samkvæmt þeim að skuldbinda ríkissjóð til að mæta eftirstöðvum og vöxtum vegna
krafna Hollendinga og Breta vegna greiðslu lágmarkstryggingar á reikningum í útibúum Landsbankans í Hollandi og Bretlandi. 

Uppbygging samninganna. Niðurstöður Icesave-viðræðnanna gera í stórum dráttum ráð fyrir að í stað hefðbundinna lánssamninga verði gerðir endurgreiðslu- og skaðleysissamningar (e. Reimbursement and Indemnity Agreements) með aðild hlutaðeigandi ríkja og Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF). Þetta kemur fram í samantekt samninganefndarinnar.

Þar segir að endurgreiðslusamningarnir séu um margt með öðru sniði en fyrri lánssamningar vegna uppgjörs lágmarkstryggingar við innstæðueigendur Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Þeir geri ráð fyrir að Tryggingarsjóður innstæðureigenda og fjárfesta endurgreiði breskum og hollenskum stjórnvöldum þær fjárhæðir sem þau hafi lagt út af því tilefni en fái í staðinn framseldan samsvarandi hluta krafna þeirra í bú bankans og annist um að innheimta þær.

Gert sé ráð fyrir að tryggingasjóðurinn nýti áður en til þess kemur þá fjármuni sem nú þegar séu til í sjóðnum til endurgreiðslu. Að því búnu verði greiðslur inntar af hendi jöfnum höndum eftir því sem úthlutað sé úr búi Landsbankans allt til loka júnimánaðar 2016.

Ábyrgð ríkisins er takmörkuð eins og kostur er og í raun eingöngu bundin við (a) samtímagreiðslur vaxta fram til júní 2016 og (b) þann hluta sem ekki hefur verið innheimtur úr búi bankans að þeim tíma liðnum.

Vextir. Vaxtaákvæði hinna nýju samninga eru verulega frábrugðin samningsákvæðum í hinum fyrri samningi.

- Í fyrsta lagi er samið um fasta vexti fram á mitt ár 2016. Vextirnir eru 3,0% á hinum hollenska hluta lánanna, en 3,3% vextir á hinum breska hluta (2/3). Meðalvextir eru eru því 3,2%.

  • samið er um að engir vextir skuli reiknast á skuldbindinganar fyrr en eftir 1. október 2009 (jafngildir 9 mánaða vaxtahléi m.v. fyrri samning);
  • áfallnir vextir fyrir árin 2009 og 2010 eru greiddir í ársbyrjun 2011;
  • vextir eru greiddir ársfjórðungslega frá ársbyrjun 2011 til miðs árs 2016.

Að teknu tilliti til vaxtahlés og áætlana um lækkun höfuðstóls samsvara áætlaðir vextir 2009 -2016 því að þeir væru að meðaltali 2,64% .

- Í öðru lagi er samið um að þær eftirstöðvar sem kunna að vera á lánunum eftir mitt ár 2016  gildi viðeigandi CIRR-vextir, eða útflutningslánavextir sem reiknaðir eru og birtir af OECD, án nokkurs vaxtaálags. Þeir vextir eru almennt hinir allra lægstu sem tíðkast í lánasamningum opinberra aðila.

Efnahagslegir fyrirvarar.
Samið er um efnahagslega fyrirvara sem eru tvíþættir, en í  þeim felst annars vegar að sett er þak á árlegar greiðslur úr ríkissjóði og hins vegar að ef höfuðstóll eftirstöðva af skuldbindingu TIF verður hærri en tiltekin fjárhæð, lengist lánstíminn sjálfkrafa eftir júnímánuð 2016  í ákveðnu hlutfalli við þá fjárhæð sem þá stendur eftir.

- þak á árlegar greiðslur ríkisins eftir 2016 miðast við 5% af tekjum ríkisins á næstliðnu ári. Komi til þess að sú fjárhæð, sem það hlutfall ríkistekna jafngildir, verði lægri en 1,3% af landsframleiðslu skal hámark endurgreiðslna miðast við það hlutfall landsframleiðslunnar (1,3% af VLF jafngildir nú um 20 milljörðum króna).

- lenging lánstíma er ákvörðuð með þeim hætti að verði eftrstöðvar höfuðstóla af skuldbindingum TIF lægri en sem nemur 45 milljörðum króna greiðast þær að fullu innan 12 mánaða, þ.e. síðari hluta árs 2016 og fyrrihluta árs 2017. Fari svo að skuldbindingin verði hærri, lengist endurgreiðslutíminn um eitt ár fyrir hverja 10 milljarða króna, þó þannig að sú fjárhæð sem eftir stæði yrði greidd í lok 30 ára endurgreiðslutíma frá 2016 að telja.

Með framangreindum fyrirvörum má telja algjörlega tryggt að greiðslur vegna Icesave skuldbindingarinnar verði ávallt innan vel viðráðanlegra marka. Ólíklegt er að nokkru sinni muni reyna á framangreint þak á greiðslur, enda verði árleg greiðslubyrði langt innan þeirra.

Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, á kynningarfundinum í Iðnó í kvöld.
Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, á kynningarfundinum í Iðnó í kvöld. mbl.is/Kristinn
Lee Buchheit, formaður íslensku samninganefndarinnar.
Lee Buchheit, formaður íslensku samninganefndarinnar. mbl.is/Kristinn
Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert