Ísland ver minnstum fjárhæðum til velferðarmála í samanburði við hin Norðurlöndin. Útgjöld til félagsverndar á Íslandi árið 2008 námu 325,6 milljörðum króna sem samsvarar 21,8% af landsframleiðslu.
Til samanburðar námu útgjöld í Danmörku 28,9% af landsframleiðslu, 28,8% í Svíþjóð, 24% í Noregi og 25,6% í Færeyjum og Finnlandi.
Um 40% útgjaldanna á Íslandi árið 2008 voru vegna heilbrigðismála, en það samsvarar 8,8% af landsframleiðslu
Þetta kemur fram í nýútkomnu riti Norrænu hagskýrslunefndarinnar á sviði félags- og tryggingarmála (Nordisk Socialstatistik Komité (NOSOSKO).
Í ritinu er að finna samanburð á velferðarþjónustu og félagsvernd milli Norðurlandanna. Fjallað er um aðgerðir opinberra aðila og einkaaðila sem miða að lífskjarajöfnun og að því að létta byrðum af heimilum og einstaklingum vegna fjárhagslegrar íþyngingar eða tekjumissis.
Á vef hagstofunnar segir að samanburður hafi verið gerður eftir verkefnasviðum sem skiptist í greiðslur (bætur, lífeyri o.s.frv.) og niðurgreidda þjónustu. Í ritinu eru borin saman útgjöld til þjónustu, fjöldatölur um móttakendur og fyrirkomulag.
Hér má lesa rit Norrænu hagskýrslunefndarinnar.