Efnahags- og viðskiptaráðuneytið keypti sérfræðiaðstoð fyrir tæpar 54 milljónir kr. frá byrjun síðasta árs til loka september sl. Hæstu upphæðirnar eru fyrir þjónustu lögfræðinga og hagfræðinga.
Lagt hefur verið fram svar við skriflegri fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um starfsmannahald og aðkeypta sérfræðiþjónustu hjá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu.
22 lögfræðingar og lögfræðistofur fengu samtals 23,6 milljónir fyrir sérfræðistörf og fimm ráðgjafarfyrirtæki fengu 23 milljónir fyrir sérfræðivinnu.
Hæsta einstaka upphæðin sem greidd var á þessu tímabili er til ráðgjafarfyrirtækisins Oliver Wyman sem var stjórnvöldum til ráðgjafar við breytingar á fjármálakerfinu.