Enginn fundur hefur verið boðaður með aðilum vinnumarkaðarins um samráð í kjaramálum, en fyrirhugað var að slíkur fundur yrði haldinn í dag. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að ákveðið hafi verið að vinna meira í kjaramálum áður en boðað yrði til fundar, en hann á von á því að fundur verði boðaður síðar í mánuðinum.
Fyrir tveimur vikum komu forystumenn samtaka á vinnumarkaði saman til fundar þar sem rætt var um samstarf við gerð kjarasamninga. Á fundinum voru fulltrúar launþegasamtaka á almennum og opinberum markaði, fulltrúar vinnuveitenda, ríkisins og sveitarfélaga. Í lok fundar var ákveðið að boða til nýs fundar að tveimur vikum liðnum. Enginn slíkur fundur hefur hins vegar verið boðaður enn.
Gylfi sagði að þó ekki væri búið að tímasetja nýjan fund reiknaði hann með að hann yrði haldinn síðar í þessum mánuði. Menn væru að ræða óformlega saman. Aðildarfélög ASÍ, sem færu með samningsumboðið, væru að reyna að samræma sjónarmið. Menn vildu því koma betur undirbúnir til næsta fundar.