Slitastjórnir bankanna hafa að undanförnu beint spjótum sínum að ytri endurskoðendum bankanna fyrir hrun. Slitastjórn Landsbankans hefur sent bréf til PricewaterhouseCoopers (PwC) á Íslandi þar sem fram kemur það mat slitastjórnarinnar að PwC hafi brotið af sér með skaðabótaskyldum hætti með því að leggja blessun sína yfir efnahagsreikning bankans fyrir árið 2007 og síðan árshlutareikninga bankans á árinu 2008, fyrir fall hans hinn 7. október sama ár.
Slitastjórn Glitnis hefur auk þess stefnt PwC fyrir dómstóli í New York, ásamt sjömenningum úr hópi eigenda og stjórnenda bankans, og krafist um 250 milljarða í bætur. PwC er talið hafa átt hlutdeild í brotum sjömenninganna sem í stefnu eru sakaðir um að hafa „rænt bankann innan frá“.
Slitastjórn Kaupþings tekur ákvörðun um hvort hún telji nauðsynlegt að krefjast bóta frá endurskoðendum bankans á næstu mánuðum, að því er kom fram á kröfuhafafundi í síðustu viku.
Þetta kemur fram í ítarlegri úttekt Viðskiptablaðsins í dag þar sem farið er yfir skýrslur sem erlendir sérfræðingar hafa unnið fyrir embætti sérstaks saksóknara á málum Landsbankans og Glitnis. Samkvæmt skýrslunum var staða bankanna tveggja afar slæm strax á árinu 2007 og hefði í raun átt að svipta Glitni bankaleyfi það ár. Bankinn starfaði hins vegar með eðlilegum hætti allt til haustsins 2008.
Norskir sérfræðingar sem hafa rannsakað Landsbankann telja bankann hafa staðið mun verr en ársreikningur bankans í lok árs 2007 gaf til kynna og að endurskoðendur frá PwC, ytri endurskoðanda bankans, hafi vitað af því.
Fyrirtækjum sem tengd hafi verið Björgólfsfeðgum, stærstu eigendum bankans, m.a. Icelandic Group og Eimskip, hafi verið haldið á lífi með blekkingum og yfirdráttarlánum, samkvæmt úttekt Viðskiptablaðsins.
Í gær fjallaði DV ítarlega um skýrsluna um Glitni og einnig RÚV en þar verður frekar fjallað um Landsbankann í dag.
PwC hafnar því að hafa brotið af sér og segist aðeins hafa unnið eftir reikningsskilastöðlum sem voru viðurkenndir, á grundvelli upplýsinga sem höfðu fengið eðlilega meðferð hjá innri endurskoðanda bankans, Fjármálaeftirliti og fleirum.
„Við getum ekki tjáð okkur í fjölmiðlum um einstök atriði sem slitastjórn og skilanefnd Landsbankans telja að PwC hafi ekki gert rétt og beri því hugsanlega skaðabótaskylda ábyrgð á. Efnislegum athugasemdum verður svarað á réttum vettvangi, en PwC telur að endurskoðunarvinna félagsins hafi verið í fullu samræmi við starfsskyldur endurskoðenda og að slitastjórn og skilanefnd Landsbankans hafi ekki málsástæður til að hafa uppi bótakröfur á hendur félaginu,“ sagði Reynir Vignir, framkvæmdastjóri PwC, í samtali við Viðskiptablaðið.