Helmingur Íslendinga, eða 53%, telja spillingu hafa aukist á Íslandi, að því er kemur fram í alþjóðlegri rannsókn Global Corruptin Barometer 2010. Þá kemur fram mjög lítið traust á stjórnmálaflokkum hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Capacent, sem sá um framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi.
Segir að spilling hafi aukist verulega í heiminum á undanförnum þremur árum að mati 60% þeirra sem tóku þátt rannsókninni.
Þá segir að einn af hverjum fjórum á heimsvísu segist hafa greitt mútur á síðastliðnu ári.
Þegar íslensku niðurstöðurnar eru skoðaðar kemur í ljós að 53% Íslendinga telja spillingu hafa aukist, 32% telja hana hafa staðið í stað og að mati 15% hefur dregið úr spillingu.
Þátttakendur voru m.a. beðnir um að meta hversu mikil spilling viðgengist innan mismunandi þjóðfélagstofnana þar sem einkunnin 1 merkti að viðkomandi stofnun væri óspillt og einkunnin 5 að hún væri gjörspillt.
Stjórnmálaflokkar á Íslandi fengu einkunnina 4,3, Alþingi 3,7, lögreglan 2,2, viðskiptalífið, 4,0, fjölmiðlar 3,5, embættismenn 3,5, dómskerfið 2,7, almenn samtök 2,6, trúfélög 3,2 og menntakerfið fékk einkunnina 2,4.
Rannsókn Global Corruption Barometer nær til 86 ríkja um allan heim og tóku 91.500 þátt í rannsókninni. Þetta er eina hnattræna rannsóknin sem gerð er á spillingu í heiminum.
Niðurstöðurnar voru neikvæðastar á Vesturlöndum. Í Vestur-Evrópu segjast 73% telja að spilling hafi aukist og 67% í Norður-Ameríku.
Ein af meginniðurstöðunum á heimsvísu er að fáir treysta stjórnvöldum og stjórnmálamönnum. Átta af hverjum tíu segja að stjórnmálaflokkar séu spilltir eða gjörspilltir og um helmingur segir tilraunir stjórnvalda til að berjast gegn spillingu ekki skila árangri.
Nánari umfjöllun má sjá á vef Transparency International.