Aðrir taki við nemendum Hraðbrautar

Menntaskólinn Hraðbraut
Menntaskólinn Hraðbraut mbl.is/Ómar Óskarsson

Annað hvort verður samið við aðra skóla um að bjóða upp á tveggja ára nám eða kennarar við Menntaskólann Hraðbraut verða fengnir til að stofna félag um rekstur hans svo nemendur skólans geti klárað nám sitt. Meirihluti menntamálanefndar Alþingis vill að hætt verði að veita fjármagni til skólansog úttekt verði gerð á samningum ríkisins við einkarekna skóla.

Í nýlegu mati Ríkisendurskoðunar á rekstri skólans kemur fram að margt hafi verið athugavert í rekstri hans.

Að sögn Skúla Helgasonar, formanns menntamálanefndar, mun hann skrifa forsætisnefnd Alþingis bréf þar sem lagt verði til að Ríkisendurskoðun verði falið að gera nákvæma heildarúttekt á framkvæmd þjónustusamninga við einkaskóla undanfarinn áratug. Verði það m.a. gert til að komast að hvort að um einstakt tilfelli sé að ræða eða hvort að víðar sé pottur brotinn. 

Lilja Mósesdóttir, varaformaður menntamálanefndar, segir að meirihlutinn hafi tekið skýrt fram að ekki væri æskilegt að gera áfram samning við Ólaf Hauk Johnson, eiganda Hraðbrautar. Finna þyrfti leið til að nemendur gætu klárað námið.

„Það yrði þá samið við einhvern annan skóla um að koma á fót svona námi. Ég veit að það eru einhverjir skólar áhugasamir um það að bjóða upp á stúdentspróf á tveimur árum,“ segir Lilja.

Hinn kosturinn væri að kennararnir sjálfir stofni fyrirtæki um það sem þeir hafi verið að gera. Það væri ráðuneytisins að ræða við áhugasama aðila.

Úttekt gerð á einkareknu skólunum

Þá segir Lilja að meirihlutanum finnist að ýmislegt hefði mátt fara betur í gerð þjónustusamninga við einkarekna skóla og í eftirliti með þeim. Þess vegna sé farið fram á úttekt á samningum við þá.

„Niðurstöður þessarar úttektar verða notaðar til að móta reglur um hvort að ráðuneytið geri samninga við einstaklinga eða bara við stofnanir. Evrópusambandið gerir t.d. aldrei samninga við einstaklinga heldur þarf það alltaf að vera stofnun eða fyrirtæki. Það er eitthvað sem okkur finnst að þurfi að skoða.“

Úttektin gefi þá hugmynd um þau atriði sem þurfi að fara inn í slíka þjónustusamninga og hvernig best sé að hátta eftirliti með þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert