Íslenska Icesave-samninganefndin gekk til viðræðna við Breta og Hollendinga á þeim forsendum að Íslendingum bæri hvorki að greiða eitt né neitt. Þetta sagði Lárus Blöndal, einn nefndarmanna, þegar niðurstöður viðræðnanna voru kynntar í gær.
„Við vorum fyrst og fremst að horfa á þetta viðfangsefni sem sameiginlegt vandamál þriggja ríkja sem við ætluðum að reyna að finna sanngjarna lausn á. Bretar og Hollendingar hafa aldrei verið í vafa um það þessa mánuði, að við værum tilbúnir, ef svo bæri undir, að reka málið á öðrum vettvangi ef þeir vildu ekki nálgast okkur meira en við teldum fullnægjandi,“ sagði Lárus.