Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, segist vera ánægður með að það sé komin niðurstaða varðandi vegaframkvæmdir á suðvesturhorninu og á Norðurlandi. Ekkert verður hins vegar af því að lífeyrissjóðirnir komi að framkvæmdunum líkt og stefnt var að, þar sem upp úr viðræðunum slitnaði á milli sjóðanna og ríkisins.
„Þetta verður til þess að verkið tefst ekki frekar og framkvæmdir geta hafist á næsta ári. Sennilega í vetur og næsta vor, og raunverulega eru þær aðeins byrjaðar. Þannig að ég lýsi ánægju minni með það að þessi niðurstaða skuli vera komin. Umfram allt þá er það sem skiptir máli,“ segir Arnar.
Hann bendir á að lífeyrissjóðirnir hafi undanfarna þrjá mánuði vitað að ríkið hefði þann möguleika að skoða hvort sú leið væri fær, að ríkið myndi sjálft fara í skuldabréfaútboð með ríkisábyrgð. Og endurlána síðan félögunum tveim, sem munu koma að framkvæmdunum. Í tilviki lífeyrissjóðanna hefðu félögin orðið lántakendur.
„Við vorum frekar hvetjandi allt frá því við vissum þetta, en gættum auðvitað trúnaðar. Og síðan hafa menn notað þennan tíma til að skoða þennan möguleika,“ segir Arnar og bætir við að lífeyrissjóðirnir hafi bent á að það gæti verið ódýrari kostur að fara þessa leið vegna ríkisábyrgðarinnar á skuldabréfunum. Annars hefðu félögin tvö verið skuldararnir og tryggingarnar hefðu verið í tekjustreyminu til félaganna.
„Fyrst ekki tókst samkomulag um að lána félögunum beint, vegna þess að það er auðvitað vaxtaálag í þeim tilvikum umfram ríkisskuldabréfin, þá biðum við bara eftir því að þessi niðurstaða kæmi.“
Aðspurður segir Arnar að sáralítið hafi borið í milli stjórnvalda og lífeyrissjóðanna. „Við höfðum áhuga að semja um fasta vexti út lánstímann og þannig voru viðræðurnar lengst af, þar til fyrir viku síðan. Þá óskaði ríkið eftir því að hafa breytilega vexti,“ segir Arnar og bætir við að menn hafi verið mjög nálægt að lenda málinu.
Þessi niðurstaða einfaldi hins vegar málið og sé síður en svo vonbrigði þegar upp sé staðið.