Allsherjarnefnd Alþingis tók fyrir á fundi sínum í morgun málefni Wikileaks og lokun kortafyrirtækjanna Visa og Mastercard á viðskipti við vefinn. Fram kom á fundinum sú skoðun þingmanna að lokunin væri gróf aðför að tjáningarfrelsinu og endurskoða ætti rekstrarleyfi þessara fyrirtækja hér á landi.
Fulltrúar frá Valitor og Borgun komu fyrir allsherjarnefnd sem og fulltrúar frá Neytendasamtökunum, Mannréttindasamtökum Íslands og Amnesty International. Einnig ræddi nefndin í síma við Kristinn Hrafnsson, talsmann Wikileaks. Það var Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, sem óskaði eftir því að allsherjarnefnd tæki málið upp og kallaði þessa fulltrúa fyrir nefndina.
„Menn vildu fá að vita á hvaða lagagrundvelli ákvörðun um lokun var tekin en þau gátu ekki svarað því, sögðu ákvörðunina hafa verið tekna af erlendum aðilum," sagði Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar, við mbl.is að fundi loknum.
Að sögn Róberts var kallað eftir frekari gögnum frá kortafyrirtækjunum og hvort fordæmi væru fyrir lokun af þessu tagi. Lýsti fulltrúi Amnesty International á Íslandi yfir þungum áhyggjum af málinu, þar sem þau samtök byggðu starfsemi sína nær alfarið á styrkjagreiðslum gegnum netið, líkt og Wikileaks hefði gert. Kom fulltrúi samtakanna á framfæri alvarlegum athugasemdum til þingmanna og kortafyrirtækjanna hér á landi.
Wikileaks í skaðabótamál
Róbert sagði það hafa komið fram í máli Kristins Hrafnssonar að síðasta sólarhringinn áður en Visa og Mastercard lokuðu á Wikileaks hefðu um 130 þúsund evrur borist síðunni gegnum styrkjakerfið á netinu, eða nærri 20 milljónir króna. Sagði Kristinn að Wikileaks myndi án efa höfða skaðabótamál á hendur kortafyrirtækjunum.
Sagði Róbert þá skoðun þingmanna í allsherjarnefnd hafa komið fram að skora á stjórnvöld að endurskoða rekstrarleyfi umræddra kortafyrirtækja hér á landi.
ATHUGASEMD FRÁ VALITOR SETT INN KL. 13:03
„VALITOR vill koma á framfæri að á umræddum fundi Allherjarnefndar í morgun voru einnig fulltrúar Kortaþjónustunnar ásamt þremur fulltrúum Teller, en Kortaþjónustan er umboðsaðili Teller AS á Íslandi. Fram hefur komið að Teller AS/Kortaþjónustan sá um að móttaka greiðslur fyrir Wikileaks sem nú hefur verið lokað fyrir. Við viljum því ítreka að VALITOR er ekki aðili að þessu máli.
Virðingarfyllst,
Viðar Þorkelsson,
Forstjóri VALITOR."
ATHUGASEMD FRÁ BORGUN SETT INN KL. 14:37
„Borgun vill koma á framfæri leiðréttingu varðandi fréttir sem birst hafa í fjölmiðlum í kjölfar fundar Allsherjarnefndar Alþingis í morgun varðandi málefni Wikileaks. Skýrt kom fram á umræddum fundi, og skal ítrekað, að Borgun er ekki aðili þessa máls. Á fundinum voru auk fulltrúa Borgunar, fulltrúar Valitors og Kortaþjónustunnar. Kortaþjónustan er umboðsaðili Teller AS (áður PBS) og hafði með höndum viðskipti Wikileaks við MasterCard International og VISA Europe. Borgun kemur hvergi þar nærri."