Þótt flestir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem rætt var við síðdegis í gær og fram eftir kvöldi, hafi verið jákvæðir gagnvart þeirri niðurstöðu sem samninganefnd Íslands um Icesave kom heim með frá Lundúnum í gær og kynnt var í þinginu, þá ber viðmælendum saman um að engin ástæða sé til þess að fara sér óðslega. Ekki verði hrapað að neinu og fráleitt sé að gera sér í hugarlund, að Icesave fái einhverja hraðferð í meðförum Alþingis, jafnvel þótt það sé ugglaust það sem bæði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra vilja.
Auðheyrt var á þingmönnum stjórnarandstöðunnar, að þeir telja himin og haf á milli þeirrar niðurstöðu sem kynnt var í gær og þess samnings sem Svavar Gestsson og samninganefnd hans gerðu í júní í fyrra og ríkisstjórnin knúði svo í gegnum Alþingi í fyrrahaust, en þjóðin hafnaði svo í þjóðaratkvæðagreiðslu.
„Það er ekki eitthvað á annað hundrað milljarða sem þessi samningur er hagstæðari. Munurinn er yfir 400 milljarðar króna, því Svavars-samningurinn gerði ráð fyrir kröfu á ríkissjóð upp á 479 milljarða króna, en þessi samningur gengur út á að 47 milljarðar geti fallið á ríkissjóð, þótt það sé vissulega háð alls kyns ytri aðstæðum,“ sagði þingmaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Morgunblaðið.
Hann og reyndar fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Hreyfingarinnar og Framsóknarflokksins telja að þessi niðurstaða sé með þeim hætti, að ekki sé hægt að túlka hana á annan veg en þann að um gríðarlegan áfellisdóm sé að ræða fyrir ríkisstjórnina, einkum Steingrím J. Sigfússon og Jóhönnu Sigurðardóttur.
„Við erum ekki búin að samþykkja eitt eða neitt. Nú munum við bara kynna okkur þennan samning í þaula og við klárum það ekkert á örfáum dögum,“ segir stjórnarandstöðuþingmaður.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu í gær, að af fenginni reynslu væri óráðlegt að reyna að flýta afgreiðslu málsins, þegar samningurinn kæmi fram í þinginu í frumvarpsformi. Það þyrfti að gaumgæfa allar hliðar hans og velta upp þeim kostum sem fyrir hendi væru. Enn væru mjög margir þeirrar skoðunar, að íslenska þjóðin ætti ekki taka á sig neinar greiðslur vegna taps einkafyrirtækis, en aðrir teldu að ljúka bæri málinu og ef það ætti að gerast með samningi, þá yrði sennilega ekki lengra komist.
Þurfa góðan tíma