Meiri matur en minna af fötum

Mun minna var keypt af fatnaði í nóvember í ár …
Mun minna var keypt af fatnaði í nóvember í ár en í fyrra mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Landsmenn virðast hafa haldið að sér höndum er kom að fatakaupum í nýliðnum mánuði en fataverslun dróst saman um rúm 19% á milli mánaða. Aftur á móti jókst velta í matvöruverslunum um rúm 3% í nóvember samanborið við nóvember í fyrra.

Velta í dagvöruverslun jókst um 3,3% á föstu verðlagi í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra og um 3,5% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í nóvember um 3,7% frá sama mánuði árið áður. Verð á dagvöru hækkaði um 0,2% á síðastliðnum 12 mánuðum, segir í fréttatilkynningu.
 
Sala áfengis dróst saman um 2,5% í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og jókst um 2,5% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum nam samdráttur í veltu áfengis í nóvember 5,0% frá sama mánuði í fyrra.  Verð á áfengi var 5,1% hærra í nóvember síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
 
Fataverslun var 19,3% minni í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og minnkaði um 19,4% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Verð á fötum lækkaði um 0,1% í nóvember síðastliðnum frá sama mánuði ári fyrr. 
 
Samdráttur í skósölu

Velta skóverslunar minnkaði um 21,5% í nóvember á föstu verðlagi og um 17,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á skóm hækkaði um 5,5% frá nóvember í fyrra.
 
Velta húsgagnaverslana var 0,1% meiri í nóvember en í sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi og jókst um 2,6% á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 0,6% frá því í fyrra á föstu verðlagi. Velta í sölu skrifstofuhúsgagna var 18,8% meiri í október síðastliðnum samanborið við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi. Verð á húsgögnum var 2,5% hærra í nóvember síðastliðnum miðaða við sama mánuð í fyrra.
 
Aukin sala á raftækjum

Sala á raftækjum í nóvember jókst um 27,9% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra og um 18,2% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Verð á raftækjum lækkaði um 5,6% frá nóvember 2009, segir í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

„Á meðan velta í dagvöruverslun jókst um 3,3% í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra dróst fataverslun saman um 19,3% og skóverslun um 21,5%. Dagvöruverslun hefur að undanförnu verið að ná jafnvægi á meðan fata- og skóverslun hefur ekki enn náð sér á strik þrátt fyrir að dregið hafi úr verðhækkunum og verð á fötum sé nánast hið sama og í nóvember í fyrra. Ætla má að nú þegar neysla á nauðsynjum á borð við dagvöru eykst verði ekki langt að bíða þar til fata- og skóverslun fari að taka við sér.
 
Athyglisvert er að velta í húsgagnaverslun jókst í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra, þó aðeins um 0,1%, en sala á húsgagögnum dróst verulega saman við efhanahgshrunið og hefur ekki náð sér á strik síðan. Þrátt fyrir þá aukningu sem varð í húsgagnaverslun núna var hún samt 65% minni en í nóvember 2007 á föstu verðlagi.
 
Nú er í fyrsta sinn birt sérstök veltuvísitala skrifstofuhúsgagna. Hún sýnir að í október jókst veltan um 18,8% frá október í fyrra á föstu verðlagi. Líklegt er að fyrirtæki og stofnanir séu frekar kaupendur skrifstofuhúsgagna en einstaklingar. Þá er einnig birt sérstök undirvísitala sem sýnir veltu sérverslana sem selja rúm. Velta þeirra verslana jókst um 0,5% frá því í fyrra á föstu verðlagi.
 
Greinilegt er að mikil aukning er í verslun með raftæki fyrir þessi jól. Í nóvember sl. nam aukningin um 27,9% frá nóvember í fyrra á föstu verðlagi. Sala á raftækjum hefur aukist jafnt og þétt undanfarna mánuði. Ein skýring er að verðlag á raftækjum fer lækkandi með styrkingu krónunnar og hugsanlegt er að lægra verð frá erlendum birgjum hafi þessi áhrif. Samkvæmt sambærilegum veltumælingum í Skandinavíu er einnig mikil aukning í raftækjasölu þar fyrir þessi jól. Í Svíþjóð er því spáð að jólaverslunin aukist um 3% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi og aukin raftækjasala vegi þar þyngst.
 
Samdráttur er enn í sölu áfengis sem rekja má til mikilla verðhækkana. Sala á áfengi er ávallt breytileg eftir árstíðum. Þannig er venjulega lítil sala í áfengi í nóvember en mikil í desember. Þegar velta áfengisverslunar hefur verið leiðrétt fyrir árstíðabundnum sveiflum kemur í ljós að veltan í nóvember síðastliðnum er minni hún hefur verið í hverjum nóvembermánuði síðastliðin fimm ár á föstu verðlagi."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert