Oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur telur að upplýsingar um góðan árangur í rekstri borgarannar staðfesti að umfangsmiklar hækkanir skatta og gjalda á næsta ári séu óþarfar.
Aðstoðarmaður borgarstjóra segist ánægður með góða stöðu og ef staðan verði einnig góð á næsta ári muni það verða til hagsbóta fyrir borgarbúa.
Hagnaður af rekstri samstæðu Reykjavíkurborgar var 16,5 milljarðar kr. á fyrstu níu mánuðum ársins, samkvæmt árshlutareikningi sem kynntur var í borgarráði í gær. Rekstur borgarsjóðs skilaði rúmum milljarði í afgang. Hins vegar urðu gengisbreytingar á lánum Orkuveitu Reykjavíkur til þess að hagnaður samstæðunnar fór yfir 16 milljarða.
„Þessar upplýsingar staðfesta þann góða árangur sem náðist eftir hrun með samstilltu átaki borgarfulltrúa, starfsmanna borgarinnar og borgarbúa. Þær staðfesta einnig að aðgerðir núverandi meirihluta gagnvart íbúum eru með öllu óþarfar og í raun óskiljanlegar,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna. Hún segir að nýta ætti þann góða árangur sem náðst hefði í fjármálunum borgarinnar síðastliðin tvö ár, í þágu borgarbúa með því að hlífa þeim við svo umfangsmiklum hækkunum skatta og gjalda.