Héraðsdómur Austurlands sýknaði í gær karlmann af ákæru um stórfellda líkamsárás. Maðurinn var sakaður um að hafa skallað annan mann í andlitið fyrir utan skemmtistað 27. desember í fyrra.
Afleiðingar hinnar meintu árásar voru þær að fórnarlambið hlaut þrjá skurði á hnakka, bólgu yfir vinstra kinnbeini, á báðum vörum, yfir kinnbeini undir hægra auga, á tannholdi, auk þess sem hann hlaut tannbrot, los á þremur tönnum, skurð á innanverðri neðri vör, eymsli á kvið og beinbrot og liðbandsáverka á hægri ökla.
Sannað þótti að mennirnir hefðu skollið saman með fyrrgreindum afleiðingum. Ákærði hafnaði því staðfastlega að hafa haft ásetning til að valda líkamstjóni og einnig hafnaði hann því að hafa „skallað“ meint fórnarlamb.
Það var mat dómsins að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna, gegn eindreginni neitun ákærða, að hann hafi af ásetningi „skallað“ hið meinta fórnarlamb í umrætt skipti. Því bæri að sýkna.