Vilja fá sett upp vefmyndasafn

Öxarárfoss á Þingvöllum er einn af þeim stöðum gætu verið …
Öxarárfoss á Þingvöllum er einn af þeim stöðum gætu verið til skoðunar í Vefmyndasafni Íslands, verði það að veruleika. Rax / Ragnar Axelsson

Þingmenn úr öllum flokkum nema Vinstri grænum standa að baki þingsályktunartillögu um svonefnt Vefmyndasafn Íslands. Í tillöguna er skorað á mennta- og menningarmálaráðherra að hefja þegar undirbúning og uppsetningu nettengdra myndavéla á allt að 150 stöðum á Íslandi.

Flutningsmaður tillögunnar er Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Í henni segir að vefmyndasafnið yrði það fyrsta sinnar tegundar í heiminum og myndi skapa óþrjótandi möguleika á landkynningu í þágu ferðaþjónustu, sögu, menningar og atvinnulífs. „Þannig væri hægt að upplifa Ísland á líðandi stundu hvaðan sem er úr heiminum og kitla taugar til frekari kynna.“

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að tillagan hafi verið lögð fram þrívegis áður. Einnig að auðvelt sé að virkja vefmyndavélar með sólarrafhlöðum til nokkurra ára, en reikna megi með að hver stöð myndi kosta að meðaltali um 1,5 milljón króna.

Meðal þeirra staða sem nefndir eru í greinargerðinni eru Gullfoss, Þingvellir, Geysir, Lónsöræfi, Landmannalaugar, Eldey, Bláa lónið, Vatnajökull, Þjórsá, Þórsmörk, Akureyri, Vestmannaeyjar, Stykkishólmur, Árnastofnun, fiskvinnsluhús, bryggjustemmning, hvalaskoðun, Skógafoss.

Þá segir: „Með vefmyndasafni hefði Ísland forgöngu í þessum efnum á heimsmælikvarða og með ólíkindum hvað hægt er að skapa fjölbreytt lifandi myndasafn frá Íslandi með þessum hætti. Að fylgjast með mannlífi, atvinnulífi, menningu og náttúru er ótrúlegur kostur, fylgjast með villtu blómabeði, á í leysingum, varpstöðvum fugla, hverum og hverasvæðum, fossum og fjöllum, innsiglingu í hafnir – hverju því er gefur mynd af andliti Íslands.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert