Veitt voru verðlaun í piparkökuhúsaleik Kötlu í Smáralind í dag. Þá fengu eigendur fallegustu og bestu húsanna viðurkenningu fyrir handverk sitt. Voru veitt fyrstu, önnur og þriðju verðlaun í fullorðinsflokki og fimm verðlaun fyrir 1.-5. sæti í barnaflokki.
Fyrstu verðlaun í fullorðinsflokki hlaut Erna Karlsdóttir fyrir Skakkabæ, í öðru sæti var Kjartan Gíslason fyrir fljúgandi skip í loftbelg og í þriðja sæti var hús Sonju B. Guðfinnsdóttur.
Í barnaflokki fengu verðlaun þau Signý og Eygló Mjöll Óladætur, Auður og Sigurbjörg, Aníta Ósk Kjærnested, Patrekur Máni og Bjarki Már og Leikskólinn Rjúpnahæð.
Örn Árnason og Edda Björgvinsdóttir í gervi eiginkonu jólasveinsins veittu verðlaunin og við það tækifæri sungu börnin á Leikskólanum Rjúpnahæð jólalög.
Piparkökuhúsin eru nú til sýnis í Smáralind í Kópavogi og á Glerártorgi á Akureyri og verða þau þar frammi til 20. desember nk. en þá geta eigendur þeirra sótt þau og notið þeirra yfir hátíðirnar.