Samninganefnd Íslands í Icesave-deilunni er bjartsýnni á endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans en skilanefnd þessa sama banka. Samninganefndin gerir ráð fyrir að eignir bankans muni aukast að verðmæti um 20 milljarða og er verðmatið þeim mun hærra en sem kemur fram í mati skilanefndarinnar.
Helmingurinn af þessari verðmætaaukningu renni til greiðslu á Icesave. Til að kostnaðaráætlun samninganefndarinnar standist mega eignir Landsbankans ekki lækka í verði, segir í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Þá reiknar samninganefndin með að 23 milljarðar sem eru óáfallnir vextir af skuldabréfi Nýja Landsbankans til þess gamla gangi upp í Icesave en skilanefndin hefur ekki tekið þessar vaxtagreiðslur með í sínum útreikningum.„Bankinn hefur ekkert að segja um hvernig aðrir túlka það, en þetta er kjarninn í nýjasta matinu sem gert hefur verið innan bankans. Við höfum ekkert frekar um málið að segja, þeir sem kunna að túlka matið á annan hátt verða að svara fyrir það með hvaða hætti þeir lesa úr því,“ segir í svari skilanefndar Landsbankans við fyrirspurn Morgunblaðsins.