Kólumbískir flóttamenn til landsins

Fjölskyldurnar munu setjast að í Reykjavík.
Fjölskyldurnar munu setjast að í Reykjavík. mbl.is/Ómar

Sex kólumbískir flóttamenn komu til landsins í gær í boði íslenskra stjórnvalda. Þetta eru tvær fjölskyldur, kona á fimmtugsaldri og ungur sonur hennar, og önnur um þrítugt með þrjú börn, þar af dóttir nokkurra mánaða.

Í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu kemur fram að flóttafólkið komi hingað til lands frá Ekvador. Það hafi flúið ofbeldi, stríðsátök og ofsóknir í heimalandi sínu. Vegna sérstakra aðstæðna fólksins í Ekvador hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna farið fram á það við íslensk stjórnvöld að fólkinu yrði veitt hér hæli.

Fjölskyldurnar tvær setjast að í Reykjavík og sjá Reykjavíkurborg og Rauði krossinn um móttöku þess.

Þá segir að Reykjavíkurborg muni útvega fjölskyldunum húsnæði, félagslega ráðgjöf, íslenskunám og samfélagsfræðslu. Börnin muni sækja leik- og grunnskóla í borginni og fái þar sérstakan stuðning, meðal annars með móðurmálskennslu, á spænsku.

Rauði krossinn útvegar fjölskyldunum húsgögn og annað nauðsynlegt innbú. Stuðningsaðilar á vegum Rauða krossins aðstoða fólkið við að tengjast samfélaginu og verða því innan handar um ýmislegt sem upp kemur við aðlögun í nýju landi.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur heildarumsjón með verkefninu, og hefur flóttamannanefnd séð um undirbúninginn ásamt samstarfsaðilunum. Utanríkisráðuneytið ber kostnaðinn af aðlögunarverkefninu til eins árs.

Fram kemur að þetta sé í þriðja sinn sem tekið á móti hópi flóttamanna frá Kólumbíu en alls hafi íslensk stjórnvöld tekið á móti 60 manns frá Kólumbíu frá árinu 2005.

Frá árinu 1996 hafa íslensk stjórnvöld tekið á móti 312 flóttamönnum í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossinn og sveitarfélög í landinu. Síðari árin hafa slíkir hópar flóttamanna sest hér að árlega en móttaka féll niður í fyrra vegna ástandsins í efnahagsmálum. Með komu fjölskyldnanna tveggja í gær er skipuleg móttaka flóttamanna hafin að nýju, þótt hópurinn sé fámennari en áður tíðkaðist. Standa vonir til að Íslendingar geti hér eftir staðið við fyrirheit sín um árlega móttöku flóttamannahópa í samvinnu við Flóttamannastofnun SÞ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert