Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV), segir að óvenju hart hafi verið sótt að lífeyrissjóðunum undanfarna mánuði að þeir veiti fé til ýmissa verkefna, sem kunni sem slík að vera góð og nauðsynleg. Það réttlæti þó ekki að lífeyrissjóðirnir fórni réttindum lífeyrisþega í nútíð og framtíð.
Eigi að koma til þess, þá verði Alþingi að ákveða það með lagabreytingum að lífeyrisréttindi verði skert.
Þetta kemur fram í pistli sem Guðmundur skrifar á vef LV. Þar segir Guðmundur ennfremur lífeyrissjóðirnir hafi undanfarið fengið margar og lítt skemmtilegar athugasemdir í tengslum við umræður um aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna. Sama sé uppi á teningnum eftir að viðræður um fjármögnun vegaframkvæmda strönduðu.
„Ætla mætti af orðum sumra ráðamanna og jafnvel sumra blaða- og fréttamanna að þeim sé ekki kunnugt um að strangar reglur gilda um hvernig lífeyrissjóðirnir haga fjárfestingum sínum. Reglur þessar byggja einkum á lögum frá Alþingi, aðrar eru til að mynda í samþykktum einstakra sjóða.
Lífeyrissjóðirnir verða, samkvæmt lögum, að fá hámarksávöxtun að teknu tilliti til áhættu á fé það sem sjóðfélagar eiga og hafa safnað með iðgjaldagreiðslum sínum. Ef stjórnendur sjóðanna víkja frá þessari skyldu sinni eru þeir að bregðast sjóðfélögum sínum sem eiga hjá sjóðnum réttindi sem ætlað er að standa undir framfærslu við starfslok. Afleiðingarnar koma þá fram í lægri lífeyri en ella, lífeyrisréttindi skerðast. Um leið kunna stjórnendur lífeyrissjóðanna og stjórnarmenn að vera ábyrgir vegna þeirrar vanrækslu sem fælist í því að samþykkja lægri ávöxtun og/eða lakari tryggingar en þeir ættu kost á annars staðar
Það er ábyrgðarhluti að krefja lífeyrissjóðina um að víkja frá skyldum sínum, jafnvel gerast brotlegir við lög,“ skrifar Guðmundur.
Hann bendir á að llífeyrissjóðirnir séu öflugustu fjármálastofnanir landsins með yfir 1.800 milljarða króna eign. Þeir fjármunir eigi að renna til lífeyrisþega. Stjórnendur sjóðanna verði því að sýna af sér þann styrk að standast þrýsting um að veita fé úr sjóðunum, ef það rýri getu þeirra til að standa undir lífeyrisgreiðslum.