Jólaskógur Skógræktarfélags Reykjavíkur í Hjalladal í Heiðmörk var opnaður í morgun. Borgarstjórinn Jón Gnarr mætti ásamt fjölskyldu sinni og valdi sér tré til að setja upp heima hjá sér en þess má til gamans geta að hann hjó það sjálfur.
„Þetta hefur verið hefð undanfarin ár hjá okkur. Borgarstjórinn kemur með fjölskyldunni og þau fara saman út í skóginn í fylgd skógarvarðarins og velja tré sem þeim líst vel á. Þau fá síðan kakó og piparkökur við varðeld og jólasveinninn hjálpar til,“ segir Kristján Bjarnason hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur í samtali við mbl.is.
Hann segir það vera hefð hjá mörgum fjölskyldum að velja sjálf sitt jólatré í Hjalladal og njóta útiveru og jólastemningar í Heiðmörkinni. „Það koma svakalega margir, sérstaklega í góðu veðri eins og er núna.“
Fólk getur fengið lánaðar sagir og valið tré sem hentar en þau kosta 5300 krónur, óháð stærð og útliti. „Svo erum við með jólatrjáasölu á markaðinum og þar er verð mismunandi eftir hæð og gerð.“
Jólaskógurinn verður opinn um helgina og næstu helgi, klukkan 11 til 16.
Dagskrána í Heiðmörk og upplýsingar um sölu má finna á vef Skógræktarfélags Reykjavíkur