Pólfararnir Gunnar Egilsson og Ástvaldur Guðmundsson eru komnir aftur á Suðurpólinn og eru á heimleið eftir að hafa ekið að Ross-íshellunni. Á Facebook-síðu sinni segir Gunnar frá því að hann hafi fengið kalsár í gær sem verið sé að meðhöndla. Gera þeir félagar ráð fyrir að koma af pólnum á tilsettum tíma.
Á Facebook-síða sínar skrifar Gunnar í dag:
„Við erum komnir á Suður Pólinn aftur. Ferðin gekk ágætlega, ekið var í einum rykk og skipst á með aksturinn. Það var leiðinda veður á okkur á leiðinni og þæfingsfæri en við höfðum trakkið okkar svo ekki þurfti að hafa eins mikinn vara á sér gagnvart sprungum og ójöfnum. Við höfum þurft að afskrifa nokkra varahluti á leiðinni, en það er nú víst í tísku þessar afskriftir hjá Íslendingum svo við sýtum það nú ekki. Erum t.d. á síðustu viftureimunum og varadekkið er komið undir ásamt fleira góssi.
Kalsárið sem ég fékk á fótinn hefst bærilega við og er í meðhöndlun svo ég reyni að hemja mig og vera eins lítið úti við og hægt er. Ekki alveg minn stíll ;o/
Við gerum ráð fyrir að fara héðan á morgun í áttina að Union Glacier og enn erum við að vona að við náum að fara af ísnum á áætluðum degi.“