Samkomulag náðist um öll helstu atriði

„Það átti að ná lagalega bindandi samkomulagi í Kaupmannahöfn í fyrra en mistókst þannig að þetta var svolítið mikilvægur fundur til að ná samningaviðræðum aftur í gang og skapa traust og það telja menn að hafi tekist,“ segir Hugi Ólafsson, formaður samninganefndar Íslands og skrifstofustjóri hjá umhverfisráðuneytinu, sem setið hefur loftslagsráðstefnuna í Cancún í Mexíkó.

Samkomulag náðist þar í morgun um efldar alþjóðlegar aðgerðir og fjármögnun í loftslagsmálum. „Það eru ýmis efnisleg atriði sem eru stór áfangi í þessu samningaferli og það er sérstaklega stóraukin peningaaðstoð til þróunarríkjanna til loftlagsmála og tækniaðstoð, en svo líka bara það að það skuli hafa nást samkomulag.“

Líkt og fram hefur komið á mbl.is er samkomulagið ekki lagalega bindandi og sker ekki úr um sum erfiðustu deilumálin í loftslagsviðræðunum, s.s. um hvort þróuð ríki muni taka á sig bindandi losunarskuldbindingar undir merkjum Kýótó-bókunarinnar eftir að 1. skuldbindingartímabili hennar lýkur í árslok 2012.

Hugi segir að það hafi ekki verið fullt samkomulag um framtíð Kyoto bókunarinnar en í byrjun ráðstefnunnar tilkynntu Japanir að þeir vildu ekki taka á sig skuldbindingar á 2.tímabili og bjuggust margir við að sú ákvörðun myndi hleypa illu blóði í viðræðurnar, en svo var ekki. Aðspurður segir hann Japani ekki vera á móti lagalega bindandi skuldbindingum heldur vilji þeir að það taki við nýtt samkomulag þar sem jafnræðis sé gætt milli skuldbindingaríkja Kyoto annars vegar og Bandaríkjanna, Kína og annarra stórra losenda hinsvegar.

„Það náðist ekki samkomulag um framtíð Kyoto en það bjóst svo sem enginn við því. Þrátt fyrir það náðist heildarpakkasamkomulag um öll helstu atriði,“ segir Hugi að lokum.

Spurningunni um lagalega bindandi losunartakmarkanir ríkja hefur verið frestað fram til 17. aðildarríkjaþings Loftslagssamningsins í Suður-Afríku í árslok 2011.   

Samkomulag náðist í dag á loftslagsráðstefnunni í Cancún í Mexíkó …
Samkomulag náðist í dag á loftslagsráðstefnunni í Cancún í Mexíkó um efldar alþjóðlegar aðgerðir og fjármögnun í loftslagsmálum. Reuters
Hugi Ólafsson.
Hugi Ólafsson. mbl.is/Kristinn
Chris Huhne, orku- og loftlagsmálaráðherra Bretlands hugsaði um umhverfið og …
Chris Huhne, orku- og loftlagsmálaráðherra Bretlands hugsaði um umhverfið og hjólaði á ráðstefnuna ásamt Gregory Barker. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert