Stóraukin framlög til þróunarríkja

Félagar í Oxfam bjuggu til þetta sandlistaverk á ströndinni í …
Félagar í Oxfam bjuggu til þetta sandlistaverk á ströndinni í Cancún. Reuters

Samkomulag náðist í dag á loftslagsráðstefnunni í Cancún í Mexíkó um efldar alþjóðlegar aðgerðir og fjármögnun í loftslagsmálum. Eitt stærsta skrefið í samkomulaginu eru vilyrði um stóraukin framlög til þróunarríkja til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu.

Þar segir að veita eigi 30 milljörðum Bandaríkjadala í þessu skyni á tímabilinu 2010-2012 og stefnt sé að því að framlög þróaðra ríkja verði árlega um 100 milljarðar Bandaríkjadala árið 2020. Stofnaður verður nýr sjóður, Græni loftslagssjóðurinn, sem verði meginfarvegur aukinnar fjármögnunar loftslagsverkefna. Annað meginatriði Cancún-samkomulagsins sé styrking á starfi til að efla þróun og dreifingu á loftslagsvænni tækni.

Samkomulagið er ekki lagalega bindandi og sker ekki úr um sum erfiðustu deilumálin í loftslagsviðræðunum, s.s. um hvort þróuð ríki muni taka á sig bindandi losunarskuldbindingar undir merkjum Kýótó-bókunarinnar eftir að 1. skuldbindingartímabili hennar lýkur í árslok 2012. Spurningunni um lagalega bindandi losunartakmarkanir ríkja er frestað fram til 17. aðildarríkjaþings Loftslagssamningsins í Suður-Afríku í árslok 2011. Hið sama á við um útfærslu ýmissa atriða í Cancún-samkomulaginu, en flestir vonast til þess að það sé skref í átt til lagalega bindandi framtíðarsamkomulags, sem gengið verði frá í Suður-Afríku.

Væntingar til Cancún-fundarins voru takmarkaðar í ljósi þess að ríkjum heims mistókst að ná lagalega bindandi samkomulagi í Kaupmannahöfn 2009, eins og stefnt hafði verið að. Samningaviðræður síðan hafa gengið hægt og einkennst af takmörkuðu trausti, einkum milli þróunarríkja og þróaðra ríkja. Japan tilkynnti í upphafi Cancún-fundarins að Japanir hygðust ekki taka á sig skuldbindingar undir merkjum Kýótó-bókunarinnar á 2. skuldbindingartímabili, sem var illa tekið af þróunarríkjum, sem leggja ofuráherslu á framhald Kýótó. Í ljósi þessa má telja að Cancún-samkomulagið sé stórt skref fram á við í samvinnu ríkja að takast á við loftslagsbreytingar. Fjölmörg ríki hrósuðu Mexíkó, sem stjórnaði viðræðunum í Cancún, fyrir að endurreisa traust í samningaviðræðunum og stýra þeim úr sjálfheldu.

Nokkur helstu efnisatriði Cancún-samkomulagsins

  • Skilgreind er sameiginleg sýn um að reyna eigi að halda hnattrænni hlýnun undir 2° C með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en einnig á að skoða möguleika á því að styrkja þetta markmið og skoða möguleika á að halda hlýnun undir 1,5° C. Ekki náðist samkomulag um að setja hnattrænt markmið um minnkun losunar til 2050, en reyna á að ná slíku samkomulagi á næsta ári.

  • Ítarleg verkáætlun var samþykkt til að styrkja starf varðandi aðlögun að loftslagsbreytingum og sérstök nefnd sett á laggir til að stýra henni.

  •  Öllum ríkjum er boðið að tilkynna markmið um minnkun losunar til skrifstofu Loftslagssamningsins og þróuðum ríkjum einnig til skrifstofu Kýótó-bókunarinnar. Þróuð ríki eru hvött til þess að taka á sig metnaðarfyllri markmið en þau hafa gert til þessa. Þróunarríki eiga að grípa til aðgerða til að draga úr losun með aðstoð þróaðra ríkja í formi fjármögnunar og tækniaðstoðar.

  • Þróunarríki eru hvött til þess að gera áætlanir til að draga úr skógareyðingu, sem er stór uppspretta losunar koldíoxíðs í andrúmsloftið. Þetta á að vera skref í átt til hnattræns verkefnis til að draga úr losun frá skógareyðingu í þróunarríkjunum, sem á að útfæra frekar hvað varðar fjármögnun, eftirlit með árangri o.fl.

  • Veita á 30 milljörðum á tímabilinu 2010-2012 til þróunarríkja til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Stefnt er að því að framlög þróaðra ríkja til þróunarríkja í því skyni verði árlega um 100 milljarðar Bandaríkjadala árið 2020. Stofnaður verður nýr sjóður, Græni loftslagssjóðurinn. Verulegur hluti stóraukinnar fjárhagsaðstoðar í loftslagsmálum að renna í gegnum sjóðinn, sérstaklega á sviði aðlögunar að loftslagsbreytingum. Alþjóðabankinn á að vista sjóðinn a.m.k. fyrstu þrjú árin.

  • Sett verður á fót kerfi til að greiða fyrir rannsóknum á loftslagsvænni tækni og tilfærslu slíkrar tækni og þekkingar til þróunarríkja. Sérstök miðstöð verður sett á fót í þessu skyni, sem á m.a. að koma á neti þekkingarstöðva, svæðisbundinna eða á sviði ákveðinna tæknilausna.

 

Áherslumál Íslands

Ísland styður lagalega bindandi losunartakmarkanir fyrir þróuð ríki, annað hvort í nýju heildstæðu samkomulagi eða á 2. skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar. Ísland vill að tryggt sé að öll þróuð ríki taki á sig sambærilegar skuldbindingar og að stór og ört vaxandi þróunarríki taki aukna ábyrgð á að draga úr losun. Ísland hefur haldið fram sjónarmiðum kynjajafnréttis og virkrar þátttöku kvenna í ákvarðanatöku. Texti þess efnis, sem Ísland hefur lagt til, er víða í Cancún-samkomulaginu, þ.á m. í inngangi þar sem fjallað er um sameiginlega sýn á lausn loftslagsvandans.  Ísland hefur lagt fram tillögu um að vernd og endurheimt votlendis verði viðurkennd leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Gengið var frá tæknilegri skilgreiningu á framkvæmd tillögu Íslands í Cancún, en endanleg samþykkt hennar bíður samkomulags um framhald Kýótó-bókunarinnar.


Kveikt á kertum í ströndinni í Cancún.
Kveikt á kertum í ströndinni í Cancún. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert