Unnið að farsælli lausn

Menntaskólinn Hraðbraut.
Menntaskólinn Hraðbraut. mbl.is/Ómar

Ólafur Haukur Johnson, skólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar, segir að unnið sé að farsælli lausn varðandi framtíð skólans með hagsmuni nemenda, aðstandenda og starfsmanna að leiðarljósi. Það sé mat menntamálanefndar Alþingis að ekki skuli samið um áframhaldandi starf skólans við núverandi eigendur.

Þetta kemur fram í athugasemd sem Ólafur birti á vef skólans í dag. Hún er svohljóðandi:

„Formaður og varformaður menntamálanefndar hafa látið frá sér fara að mat nefndarinnar sé að ekki skuli samið um áframhaldandi starf skólans við núverandi eigendur. Úttekt nefndarinnar um starf skólans liggur þó ekki fyrir. Rétt er að minna á að lokaákvörðun um fjárstuðning við skólann er hjá ráðherra og Alþingi. Á meðan málið er á þessu stigi er ekki hægt að tjá sig frekar um það en unnið er farsælli lausn þess með hagsmuni nemenda, aðstandenda og starfsmanna að leiðarljósi,“ skrifar Ólafur.

Fram kom á mbl.is í gær að annað hvort verði samið við aðra skóla um að bjóða upp á tveggja ára nám eða kennarar við Hraðbraut verði fengnir til að stofna félag um rekstur hans svo nemendur skólans geti klárað nám sitt. Meirihluti menntamálanefndar Alþingis vilji að hætt verði að veita fjármagni til skólans og að úttekt verði gerð á samningum ríkisins við einkarekna skóla.

Fram kom í skýrslu Ríkisendurskoðunar í haust að á sjö ára tímabili hafi ríkið greitt 192 milljónum króna meira til Hraðbrautar en því hafi borið að gera. Á þessu tímabili hafi menntaskólinn greitt eigendum sínum 82 milljónir kr. í arð, án þess að hafa í raun bolmagn til þess. Þá segir í skýrslunni að lánastarfsemi skólans til tengdra aðila hafi verið í andstöðu við samstarfssamning við ríkið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka