Atvinnuleysi mælist 7,7%

Vinnumálastofnun
Vinnumálastofnun mbl.is/Ómar Óskarsson

Skráð atvinnuleysi í nóvember 2010 var 7,7%, en að meðaltali voru 12.363 atvinnulausir í nóvember og eykst atvinnuleysi um 0,2 prósentustig frá október, eða um 301 manns að meðaltali.  

Körlum á atvinnuleysisskrá fjölgar um 313 eða um 0,3 prósentustig að meðaltali en konum fækkar um 12 að meðaltali og er hlutfall atvinnuleysis óbreytt meðal þeirra. Mest fjölgar atvinnulausum hlutfallslega á Austurlandi en þar fjölgar um 67 manns á atvinnuleysisskrá að meðaltali.

Atvinnuleysið er 8,4% á höfuðborgarsvæðinu en 6,6% á landsbyggðinni. Mest er það á Suðurnesjum 12,9 %, en minnst á Vestfjörðum 3% og 3,1% á Norðurlandi vestra. Atvinnuleysið er 8,1% meðal karla og 7,2% meðal kvenna. 

Alls voru 13.619 atvinnulausir í lok nóvember. Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 11.213, af þeim voru 4.060 í einhvers konar úrræðum á vegum Vinnumálastofnunar, auk þess sem mikill fjöldi fer í ráðgjafarviðtöl, á kynningarfundi og í vinnumiðlun, segir í nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar.

Fjölgun atvinnulausra í lok nóvembermánaðar frá lokum október nam 339 en 324 fleiri karlar voru á skrá og 15 fleiri konur. Á landsbyggðinni fjölgar um 369 en fækkar um 30 á höfuðborgarsvæðinu.

Færri án atvinnu í hálft ár en áður en fjölgar sem hafa verið án atvinnu í eitt ár

Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði er nú 7.201 og fækkar um 4 frá lokum október og er um 53% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í lok nóvember.

Þeim sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár fjölgar úr 4.614 í lok október í 4.649 í lok nóvember.

Alls voru 2.329 á aldrinum 16‐24 ára atvinnulausir í lok nóvember en 2.168 í lok október eða um 17% allra atvinnulausra í nóvember og fjölgar um 161 frá því í október.

Í nóvember 2009 var fjöldi atvinnulausra ungmenna 2.701 og hefur því fækkað um 372 frá nóvember 2009. Laus störf og ráðningar í nóvember

Alls voru 168 laus störf hjá vinnumiðlunum í lok nóvember sem eru 147 færri laus störf frá því í mánuðinum áður, þegar þau voru 315. Flest störf eru í þjónustu, sölu og afgreiðslu.

 Alls voru 2.215 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok nóvember, þar af 1.344 Pólverjar eða um 61% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok mánaðarins. Langflestir atvinnulausra erlendra ríkisborgara voru starfandi í byggingariðnaði eða 551.

Minnkað starfshlutfall, hlutastörf og hlutabætur Samtals voru 2.087 af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok nóvember í hlutastörfum, þ.e. þeir sem eru í reglubundnum hlutastörfum eða með tilfallandi eða tímabundið starf á síðasta skráningardegi í nóvember. Þetta eru um 15% af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok nóvember.

Af þeim 2.087 sem voru í hlutastörfum í lok nóvember voru 1.244 einstaklingar sem sóttu um atvinnuleysisbætur skv. lögum um minnkað starfshlutfall frá því í nóvember 2008.

Í lok nóvember voru 29 sjálfstætt starfandi skráðir á atvinnuleysisskrá vegna samdráttar í rekstri skv. áður nefndum lögum. Þeim fækkar um 3 frá október þegar þeir voru 32.

Í desember 2009 var atvinnuleysi 8,2% og jókst úr 8% í nóvember það ár. Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysið í desember aukist og verði á bilinu 7,8%‐8,1%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert