Finnur Sveinsson hefur verið ráðinn til Landsbankans í stöðu sérfræðings í samfélagslegri ábyrgð.Yfir 90 manns sóttu um starfið þegar það var auglýst um miðjan október.
Staða sérfræðings í samfélagslegri ábyrgð er ný í Landsbankanum og mun starfsmaðurinn leiða stefnumótun og starf bankans í samfélagslegri ábyrgð og njóta til þess liðsinnis yfirstjórnar og hóps starfsmanna. Finnur hefur störf í janúar, samkvæmt fréttatilkynningu frá Landsbankanum.
„Finnur hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, hann er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og starfaði í Íslandsbanka að loknu námi en hélt svo til Svíþjóðar þar sem hann lauk námi í umhverfisfræði. Að því loknu hóf hann störf sem ráðgjafi og hefur unnið við ráðgjöf á sviði umhverfismála frá árinu 1998 í í Svíþjóð, en þar rak hann fyrirtæki sem hét NOMIK AB. Frá miðju ári 2007 hefur Finnur rekið FSV Ráðgjöf hér á landi."
Frá miðju ári 2006 hefur Finnur starfað mikið fyrir Alcoa Fjarðaál (AF) að margvíslegum verkefnum. Hann hefur komið að og leitt á vissum sviðum uppbyggingu umhverfis- og samfélagsmála hjá AF. Þessu til viðbótar sá hann um samningaviðræður við marga birgja Fjarðaáls, innanlands og erlendis og byggði upp viðskiptasambönd við þá.
Meðal helstu verkefna sérfræðings í samfélagslegri ábyrgð í Landsbankanum er að stuðla að ábyrgri lánastarfsemi og viðskiptum, góðu siðferði og gagnsæi, virkri þátttöku bankans í umræðu um ábyrgð fyrirtækja, virkri umhverfisstefnu, stuðningi við samfélagsleg verkefni, upplýsingagjöf um samfélagslega ábyrgð utan bankans og innan auk samstarfs við fyrirtæki og stofnanir hérlendis og erlendis," segir í fréttatilkynningu frá Landsbankanum.