Menntamálanefnd Alþingis telur að skýrsla Ríkisendurskoðunar um menntaskólann Hraðbraut kalli á að gerð verði úttekt á framkvæmd allra þjónustusamninga mennta- og menningarmálaráðuneytisins um rekstur einkaskóla.
Telur nefndin nauðsynlegt að í slíkri skýrslu komi fram hvort og í hve miklum mæli það hafi viðgengist að fjárframlög hafi verið ofgreidd úr ríkissjóði án þess að til endurgreiðslu þeirra hafi komið. Jafnframt komi fram samanburður við opinbera framhaldsskóla í þessu sambandi.
Hinn 29. júní 2010 óskaði mennta- og menningarmálaráðuneytið eftir því að Ríkisendurskoðun fjallaði um framkvæmd þjónustusamnings ráðuneytisins við Hraðbraut ehf. sem rekur Menntaskólann Hraðbraut.
Í skýrslu um framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut frá september 2010 gagnrýnir Ríkisendurskoðun nokkur atriði sem tengjast tilurð framangreinds þjónustusamnings í upphafi áratugarins.
Ríkisendurskoðun gagnrýnir að hvorki hafi verið gerð formleg greining á því hvort þörf væri fyrir skóla eins og Menntaskólann Hraðbraut áður en í samningaviðræður var ráðist né lagt mat á hvort hagkvæmara væri að bjóða upp á sambærilegt nám við starfandi framhaldsskóla. Að auki kemur fram gagnrýni á að öðrum aðilum en Hraðbraut ehf. hafi ekki verið veitt jöfn tækifæri á að bjóða í það verkefni sem ráðuneytið útfærði í þjónustusamningi um rekstur skólans.
Ráðuneytið brást að áliti meirihlutans
Meirihluti menntamálanefndar Alþingis, en hann skipa Skúli Helgason, Eygló Harðardóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Oddný G. Harðardóttir og Þráinn Bertelsson, telur að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi á árunum 2004-2007 brugðist í grundvallaratriðum eftirlitsskyldu sinni með framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut. Þá telur meiri hlutinn að ekki hafi verið lagastoð fyrir þeirri ákvörðun þáverandi menntamálaráðherra að fella niður 92,1 m. kr. skuld skólans við ríkissjóð þegar þjónustusamningur ráðuneytisins og Hraðbrautar ehf. var endurnýjaður árið 2007.
Meirihlutinn gagnrýnir að á sama tíma og virkt eftirlit er með því gagnvart opinberum skólum að ríkisframlög fylgi raunverulegum nemendafjölda hafi ráðuneytið vanrækt að fylgja eftir hliðstæðum ákvæðum þjónustusamnings um rekstur umrædds einkaskóla. Telur meiri hlutinn mikilvægt að fullt samræmi sé í eftirfylgni ráðuneytisins með ráðstöfun opinbers fjár í menntakerfinu, hvort sem um opinbera skóla eða einkaskóla er að ræða.
Þá áréttar meirihlutinn mikilvægi þess að eftirlit og eftirfylgni ráðuneytisins með þjónustusamningum verði eflt til muna. Meirihlutinn átelur að ráðuneytið skuli hafa undirritað samning við einn lögaðila en síðan greitt framlög úr ríkissjóði til annars lögaðila í eigu sömu einstaklinga.
Það er afstaða meirihlutans að skýrsla Ríkisendurskoðunar sé þungur áfellisdómur yfir fjármálaumsýslu og rekstrarháttum eigenda Hraðbrautar ehf. og stjórnenda Menntaskólans Hraðbrautar. Meðferð þeirra á fjárframlögum úr ríkissjóði verður að teljast sérstaklega ámælisverð þegar höfð er hliðsjón af arðgreiðslum sem byggðust á vafasömum forsendum, lánveitingum til eigenda í andstöðu við ákvæði þjónustusamnings og ítrekuðum ofgreiðslum fjármuna sem ekki voru endurgreiddar í ríkissjóð.
Núgildandi þjónustusamningur mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Hraðbrautar ehf. fellur úr gildi 31. júlí 2011. Í ljósi þeirra alvarlegu ásakana sem fram koma í garð eigenda skólans í skýrslu Ríkisendurskoðunar um meðferð þeirra á opinberu fjármagni getur meiri hluti menntamálanefndar Alþingis ekki mælt með því að þjónustusamningur ráðuneytisins við núverandi eigendur Hraðbrautar ehf. verði endurnýjaður. Þá telur meiri hlutinn, í ljósi ályktana Ríkisendurskoðunar, miklum vafa undirorpið að núverandi rekstrarfyrirkomulag skólans fái staðist til framtíðar.
Hins vegar leggur meiri hlutinn ríka áherslu á að hagsmunir núverandi nemenda skólans verði tryggðir og skorar á mennta- og menningarmálaráðuneytið að leita allra leiða til að tryggja að þeir nemendur sem leggja stund á nám í Menntaskólanum Hraðbraut eigi áfram kost á sambærilegu námi á næsta skólaári sem geri þeim kleift að ljúka námi til stúdentsprófs á tilsettum tíma.
Meiri hluti nefndarinnar áréttar að skýrsla Ríkisendurskoðunar er fyrst og fremst þungur áfellisdómur yfir fjármálaumsýslu eigenda Menntaskólans Hraðbrautar ehf. en ekki því faglega starfi sem unnið hefur verið innan skólans. Sá valkostur sem Menntaskólinn Hraðbraut hefur boðið nemendum á fullan rétt á sér og er það von meirihlutans að sambærilegt úrræði muni áfram standa hæfileikaríkum framhaldsskólanemum til boða. Meirihlutinn leggur áherslu á að skýr lærdómur verði dreginn af því máli sem hér er til umfjöllunar og í þjónustusamningum mennta - og menningarmálaráðuneytisins við einkaskóla í framtíðinni verði settar afgerandi skorður við arðgreiðslum til eigenda og lánveitingum til tengdra aðila. Jafnframt verði tryggt að ekki sé brotinn réttur á fagstéttum viðkomandi skóla, hvað varðar starfskjör og önnur réttindi.
Meiri hlutinn leggur að lokum til að upplýsingar sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd þjónustusamninga verði notaðar til að móta reglur um rekstrarform í tengslum við gerð þjónustusamninga við menntastofnanir, endurbæta innihald slíkra samninga og eftirlitsferla með framkvæmd þeirra.
Sjónarmið minni hluta nefndarinnar
Minni hluti nefndarinnar, sem skipa Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Írís Róbertsdóttir, telur að þegar fjallað er um málefni Menntaskólans Hraðbrautar ber að líta til tveggja þátta, annars vegar rekstrar og fjárumsýslu stjórnenda og hins vegar til innra starfs skólans og ánægju nemenda.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti óskaði eftir því að Ríkisendurskoðun fjallaði um framkvæmd þjónustusamnings ráðuneytisins við Hraðbraut ehf. sem rekur Menntaskólann Hraðbraut. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að skv. 5. gr. þjónustusamningsins skuli fara fram árlegt uppgjör á fjárreiðum skólans. Slíkt uppgjör hefur þó aldrei farið fram þrátt fyrir að skólinn hafi starfað frá 2003 – 2010 og ráðuneytið hafi vitað að nemendafjöldi við skólann væri ekki í takti við fjárlög og að skólinn hafi fengið hærri greiðslur en hann átti rétt á samkvæmt þjónustusamningi. Slíkt hlýtur að teljast ámælisvert bæði af hálfu ráðuneytisins og stjórnendum skólans.