6,5 milljörðum varið til fjárfestinga

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Júlíus

Fjárfestingaráætlun Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir að 6,5 milljörðum króna verði varið til fjárfestinga. Það er umtalsverð aukning frá því sem gert var ráð fyrir í gildandi þriggja ára áætlun, en svipuð fjárhæð og á þessu ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Degi B. Eggertssyni, formanni borgarráðs.

„Með þessum áherslubreytingum er stuðlað að framkvæmdum og auknu atvinnuframboði. Framkvæmda- og eignasvið áætlar að á bilinu 530-580 bein ársverk geti verið að ræða. Þá eru ótalin afleidd störf,“ segir í tilkynningunni.

Þá er gert fyrir að fjárfestingar verði að mestu leyti fjármagnaðar með lánum. Líkt og sl. 2 ár sé fjárfestingaráætlunin sett fram með fyrirvara um að lánsfé fáist á ásættanlegum kjörum. Áfram sé stefnt að samvinnu við Vinnumálastofnun um átaksverkefni. 

Endurbætur á torgum borgarinnar


Jafnframt verður verkefnum forgangsraðað í ljósi áhrifa þeirra á störf. Framkvæmdir sem krefjist margra vinnufúsra handa verði í forgangi og áhersla verði lögð á að nota íslenska framleiðslu og efnivið. Sérstaklega hafi verið horft til framkvæmda sem skapi afleidd störf að framkvæmdum loknum og hljóta þau sérstakan forgang. Næst hafi verið horft til þeirra framkvæmda sem líklegast sé að leiði af sér auknar tekjur í framtíðinni á móti þeirri hækkun kostaðar sem til komi vegna fjárfestinganna. Í þriðja flokk séu svo settar þær framkvæmdir sem leiði af sér aukinn rekstrarkostað og skapi fyrst og fremst störf meðan á framkvæmdum stendur.

Meiriháttar viðhaldsverk

Einnig kemur fram að rúm 50% áætlunarinnar (3.265 milljónir) séu vegna endurbóta og meiriháttar viðhaldsverka og sé það í samræmi við áherslur borgarráðs sem hafi falið Framkvæmda- og eignasviði að kanna með hvaða hætti hægt sé að flýta þeim þáttum til að efla atvinnu í borginni. „Það má líta svo á að til lengri tíma litið valdi þessar framkvæmdir ekki auknum kostnaði borgarsjóðs þar sem hvort sem er hefði þurft að ráðast í þær innan ekki langs tíma. Stærsta einstaka verkefnið af þessum toga er fyrsti áfangi við endurgerð sundlaugarmannvirkja (500 milljónir).
Hverfaráð og íbúar leggja línur í framkvæmdum,“ segir í tilkynningunni.

Aukið samráð við íbúa

Í ríkari mæli en áður verði við undirbúning framkvæmda, sérstaklega í almenningsrýmum, haft samráð við hverfaráð og íbúa um forgangsröðun verkefna og útfærslur. „Þannig eru 150 milljónir áætlaðar í svokallaða ,,hverfapotta“ til framkvæmda innan hverfanna. Er þeim einkum ætlað að virkja íbúa í hverfum og með þeim á að bæta ástand opinna svæða og torga í hverfum borgarinnar. Þá verður einnig gert átak í miðborginni til fegrunar en stefnt er að því að framkvæmdirnar dragi fleira fólk til miðborgarinnar og ánægjulegra verði fyrir fjölskyldu- og ferðafólk að dveljast þar.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka