Kona, sem var í Héraðsdómi Reykjaness í gær dæmd í tveggja ára fangelsi, þar af 22 mánuði skilorðsbundið, fyrir fjárdrátt í sendiráði Íslands í Vín er þunguð og á tæplega ársgamalt barn. Hins vegar þótti ekki hægt að skilorðsbinda refsinguna að fullu meðal annars vegna alvarleika brotsins og að í lögum er ákvæði sem heimilar dvöl ungbarna með móður í fangelsi.
Konan, sem er 29 ára að aldri, játaði við fyrirtöku málsins að hafa á tímabilinu 2. mars til 6. október 2009, í starfi sínu sem sendiráðsfulltrúi í sendiráði Íslands í Vín í Austurríki og síðar stjórnarráðsfulltrúi og starfsmaður á rekstrar- og þjónustusviði utanríkisráðuneytisins, dregið sér og notað heimildarlaust í eigin þágu samtals, 335.768 evrur, rúmar fimmtíu milljónir króna. Jafnframt var hún ákærð fyrir að láta hjá líða að tilkynna að hún væri enn að fá staðaruppbót eftir að hún fluttist til í starfi hingað til lands.
Lýsti konan því yfir að hún hafi dregið að sér fé vegna spilafíknar. Hefur hún verið í meðferð hjá geðlækni á tímabilinu 15. október 2009 til 24. febrúar 2010. Lýsti konan mikilli vanlíðan og sektarkennd og erfiðleikum vegna spilafíknar. Þá hafi hún orðið fyrir miklum áföllum er hún var 19 ára, en hún hafi misst kærasta sinn af slysförum og vinkonu vegna voðaverks. Hún hafi verið greind þannig að hún hafi átt í erfiðleikum með að viðhalda eðlilegu lífi í kjölfar alvarlegs áfalls og væri með spilafíkn. Fyrir liggja gögn um að konan hafi leitað sér hjálpar vegna spilafíknar hjá S.Á.Á.