Betra að hækka útsvarið meira

Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi VG.
Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi VG. Heiðar Kristjánsson

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG, segir að það komi mun betur út fyrir fjölskyldufólk í Reykjavík að hækka útsvar meira og halda gjöldum óbreyttum en að fara þá leið sem meirihlutinn hefur farið, að hækka útsvar og gjöld sömuleiðis.

Í fréttatilkynningu frá Sóleyju er gerður samanburður á fjölskyldum með tilliti til tillagna meirihlutans og tillagna sem hún hefur sjálf kynnt. Meirihlutinn hefur samþykkt að hækka útsvarið í 13,20% en Sóley vill að það hækki í 13,28%.

„Ljóst er að leið meirihlutans kemur til með að kosta þær fjölskyldur sem hækkanirnar bitna verst á tæpar 300.000 krónur á ári á meðan fullnýting útsvars myndi kosta sömu fjölskyldu 42.000 krónur á ári. Í öðrum tilfellum er munurinn ekki jafnmikill en talsverður þó. Fullnýting útsvars kemur aðeins verr niður á barnlausu fólki yfir meðaltekjum, þó ekki nærri eins illa og gjaldskrárbreytingarnar bitna á barnafólki,“ segir Sóley.

Öll dæmin sem Sóley leggur fram eru tilbúin en hún segir þau byggð á raunhæfum tekjum og raunhæfri þjónustuþörf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert