Viðræðum um sameiningu Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík hefur verið hætt og var það ákveðið á stjórnarfundi Háskólans á Bifröst í dag að halda áfram rekstri skólans í Borgarfirði. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
„Skólinn mun halda áfram eins og hann hefur verið, það var vilji stjórnarinnar,“ sagði Magnús Árni Magnússon, rektor Háskólans á Bifröst í samtali við mbl.is í kvöld.
Morgunblaðið greindi frá því í lok nóvember að stjórn og stjórnendur skólans væru í stefnumótunarvinnu með það að markmiði að tryggja framtíð skólans sem á í fjárhagsvandræðum.
Aðspurður hvernig skólinn muni taka á þeim málum sagði Magnús: „Það er hlutur sem við erum að ræða þessa stundina. Það eru ákveðnar hugmyndir þar í gangi sem er ótímabært að tjá sig um í fjölmiðlum.“