Aðalsteinn Baldursson, formaður stéttarfélagsins Framsýnar í Þingeyjarsýslu, fékk svín í fimmtugsafmælisgjöf. Félagar Aðalsteins í stjórninni gáfu honum svínið að loknum jólafundi félagsins.
Aðalsteinn er ekki óvanur dýrahaldi því að hann hefur rekið lítið sauðfjárbú í mörg ár samhliða öðrum störfum. Þetta er heldur ekki í fyrsta skipti sem hann fær dýr í afmælisgjöf því hann fékk hænu þegar hann varð fertugur.
Á heimasíðu Framsýnar segir að Aðalsteinn hafi orðið hissa
á gjöfinni þó hann hafi átt á ýmsu von frá félögum sínum. „Að loknum fundi rölti
Kúti [Aðalsteinn Baldursson] heim með gjöfina og það vakti að vonum furðu vegfarenda þegar þeir sáu hann
kjaga heimleiðis með svínið undir hendinni snemma á sunnudagsmorgni. Eftir því
sem best er vitað bárust lögreglunni engar tilkynningar um göngutúrinn en gera
má ráð fyrir að frakkaklæddur maður, gangandi Garðarsbrautina að næturlagi með
svín undir hendinni, gæti vakið grunsemdir.“
Gyltan, sem enn hefur ekki
hlotið nafn, er 6 vikna gömul og nýtur nú lífsins í bílskúrnum hjá Aðalsteini. Þar mun hún búa þar til endurbótum í fjárhúsinu hans lýkur, en þar
er verið að innrétta svínastíu til að hýsa nýja íbúann.