Gjaldskrár tekjutengdar?

Seinni umræða um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2011 hefur staðið …
Seinni umræða um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2011 hefur staðið yfir frá kl. 14 í dag. Myndin var tekin á kjördag í vor. mbl.is/Eggert

Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík vill gjarnan setja upp eins konar gjaldskrárstefnu fyrir borgina. Til greina komi að tekjutengja gjaldskrár borgarinnar þannig að þeir efnaminnstu fengju mestan afslátt en þeir sem væru efnameiri eða efnamestir greiddu hlutfallslega mest. Þetta kom fram á borgarstjórnarfundi í kvöld.

Á fundinum fer fram seinni umræða um fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2011. Fundurinn hófst klukkan 14 í dag og hefur því staðið í rúmlega sjö klukkustundir. „Nú erum við búin að sitja hér í rúma sjö tíma og ég verð að segja að þetta hefur mestanpart verið skemmtilegt og fræðandi,“ sagði borgarstjóri á tíunda tímanum.

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri-grænna, spurði hann fyrr í kvöld um hversu hátt hlutfall af leikskólaskólakostnaði foreldrar ættu að greiða. Jón Gnarr sagðist ekki viss um hvert væri hóflegt eða eðlilegt gjald. „Ég held að það fari mjög eftir efnum og aðstæðum hverju sinni,“ sagði hann. Honum fyndist eðlilegt að þeir sem hefðu minnstu tekjurnar greiddu minnst en þeir efnameiri greiddu meira. „Þar kem ég aftur inn á að launatengja gjöldin,“ sagði hann.

Ekki er gert ráð fyri slíkri tekjutengingu í fjárhagsáætluninni. Ekkert sveitarfélag hefur tekið upp á að tengja gjaldskrár við laun. 

Hægt er að hlusta á beina útsendingu af fundum á vef Reykjavíkurborgar.

Jón Gnarr sagði að í fjárhagsáætluninni væri fyrst og fremst forgangsraðað fyrir þá sem minnst megi sín, fyrst og fremst með því að hækka fjárhagsaðstoð. 

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafa í kvöld m.a. gagnrýnt meirihlutann fyrir stefnuleysi í fjárhagsáætluninni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert