„Heimiliskettir“ á fundinum

Frá fundi fjárlaganefndar í kvöld.
Frá fundi fjárlaganefndar í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Meiri­hluti fjár­laga­nefnd­ar af­greiddi fjár­laga­frum­varp árs­ins 2011 til þriðju umræðu nú í kvöld. Ásmund­ur Ein­ar Daðason, þingmaður VG, mætti ekki til fund­ar­ins. „Þannig að þetta voru aðallega heim­iliskett­ir en eng­ir villikett­ir,“ sagði Kristján Þór Júlí­us­son, Sjálf­stæðis­flokki.

Nefnd­in átti að hitt­ast klukk­an 10 í dag en fund­in­um var frestað til kl. 19:30 í kvöld. Hvorki náðist í Odd­nýju G. Harðardótt­ur formann nefnd­ar­inn­ar né Björn Val Gísla­son, vara­formann. 

Kristján Þór Júlí­us­son gagn­rýndi meiri­hluta nefnd­ar­inn­ar fyr­ir að af­greiða frum­varpið nú og sagði að nefnd­in hefði þurft meiri tíma til að fara yfir til­lög­ur stjórn­ar­flokk­anna að meiri út­gjöld­um rík­is­sjóðs. Alls nemi út­gjalda­auk­inn milli annarr­ar og þriðju umræðu um níu millj­örðum króna. Stærsti hlut­inn, sex millj­arðar, sé vegna auk­inna vaxta­bóta í tengsl­um við aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar í þágu skuldugra heim­ila. Þau út­gjöld eigi að fjár­magna með skatti á fjár­mála­fyr­ir­tæki og líf­eyr­is­sjóði en al­gjör­lega eigi eft­ir að út­færa með hvaða hætti það verði gert. Þá sé óljóst hvort Íbúðalána­sjóður verði einnig skattlagður til að standa und­ir vaxta­bót­un­um. Um 1,9 millj­arðar af aukn­um út­gjöld­um væru vegna þess að rík­is­stjórn­in hefði hætt við að lækka vaxta­bæt­ur. Nettóaukn­ing út­gjalda væri um þrír millj­arðar, milli umræðna.


Sjálf­stæðis­menn munu leggja fram sín­ar eig­in breyt­inga­til­lög­ur við frum­varpið. Þá benti Kristján Þór á að sjálf­stæðis­menn hefðu ít­rekað boðið stjórn­ar­meiri­hlut­an­um upp á sam­starf um breyt­ing­ar á rík­is­rekstr­in­um og við að ná fram nauðsyn­legri hagræðingu. Þessu hefðu þing­menn stjórn­ar­inn­ar í engu sinnt, enda ekki von á því þar sem þeir væru ei­líf­lega að bíða eft­ir til­lög­um frá stjórn­ar­ráðinu og flest­ar væru þær til út­gjalda.

Þriðja umræða um fjár­laga­frum­varpið er á dag­skrá þings­ins á morg­un en vænt­an­lega verða greidd at­kvæði um það á fimmtu­dag.


mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert