„Heimiliskettir“ á fundinum

Frá fundi fjárlaganefndar í kvöld.
Frá fundi fjárlaganefndar í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Meirihluti fjárlaganefndar afgreiddi fjárlagafrumvarp ársins 2011 til þriðju umræðu nú í kvöld. Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG, mætti ekki til fundarins. „Þannig að þetta voru aðallega heimiliskettir en engir villikettir,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, Sjálfstæðisflokki.

Nefndin átti að hittast klukkan 10 í dag en fundinum var frestað til kl. 19:30 í kvöld. Hvorki náðist í Oddnýju G. Harðardóttur formann nefndarinnar né Björn Val Gíslason, varaformann. 

Kristján Þór Júlíusson gagnrýndi meirihluta nefndarinnar fyrir að afgreiða frumvarpið nú og sagði að nefndin hefði þurft meiri tíma til að fara yfir tillögur stjórnarflokkanna að meiri útgjöldum ríkissjóðs. Alls nemi útgjaldaaukinn milli annarrar og þriðju umræðu um níu milljörðum króna. Stærsti hlutinn, sex milljarðar, sé vegna aukinna vaxtabóta í tengslum við aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu skuldugra heimila. Þau útgjöld eigi að fjármagna með skatti á fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði en algjörlega eigi eftir að útfæra með hvaða hætti það verði gert. Þá sé óljóst hvort Íbúðalánasjóður verði einnig skattlagður til að standa undir vaxtabótunum. Um 1,9 milljarðar af auknum útgjöldum væru vegna þess að ríkisstjórnin hefði hætt við að lækka vaxtabætur. Nettóaukning útgjalda væri um þrír milljarðar, milli umræðna.


Sjálfstæðismenn munu leggja fram sínar eigin breytingatillögur við frumvarpið. Þá benti Kristján Þór á að sjálfstæðismenn hefðu ítrekað boðið stjórnarmeirihlutanum upp á samstarf um breytingar á ríkisrekstrinum og við að ná fram nauðsynlegri hagræðingu. Þessu hefðu þingmenn stjórnarinnar í engu sinnt, enda ekki von á því þar sem þeir væru eilíflega að bíða eftir tillögum frá stjórnarráðinu og flestar væru þær til útgjalda.

Þriðja umræða um fjárlagafrumvarpið er á dagskrá þingsins á morgun en væntanlega verða greidd atkvæði um það á fimmtudag.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert