Óbærilegur hraði

Pétur Blöndal
Pétur Blöndal

Unnið er að miklum hraða innan efnahags- og skattanefndar Alþingis að tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins sem stefnt er á að klára á fimmtudag. Er vinna við þá hlið nokkuð á eftir öðrum í frumvarpinu. Segir Pétur Blöndal, fulltrúi Sjálfstæðisflokks, að hraðinn í vinnubrögðum sé allt að því óbærilegur.

„Það er verið að vinna mjög hratt í gegnum tekjuliðina, jafnvel þannig að maður nær ekki að lesa hvorki frumvarpið né umsagnir. Þetta er farið að verða allt að því óbærilegt, þessi hraði og samráðsleysi,“ segir Pétur Blöndal, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd sem fundaði í kvöld um tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Stefnt er að því að klára fjárlögin á fimmtudag.

Pétur segir fjárlög séu alltaf spá og ef búið sé að vinna tekjuhliðina að mestu leyti ætti það ekki að stoppa fjárlögin.

„Tímasetning tekjuhliðarinnar er ekki veigamest en auðvitað er slæmt að fá málin með svona gífurlegum hraða og hve lítill tími gefst til að fara yfir málin,“ segir Pétur.

Hann hafi t.a.m. bent á alvarlega áhættu ríkissjóðs vegna gengistryggðra lána sem gæti gert ríkið skaðabótaskylt fyrir tugi milljarða króna en það sé í rauninni ekki rætt innan nefndarinnar.

Sem dæmi um hraðann í vinnubrögðum þá hafi á laugardaginn var verið boðaður tveggja tíma fundur í nefndinni með tveimur málum á dagskrá. Dagskránni hafi hins vegar verið breytt á miðjum fundi og fjögur ný mál tekin fyrir og fundurinn staðið í sex tíma.

Boðaður fundur efnahags- og skattanefndar sem átti að fara fram á morgun fellur niður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert