Öryrkjum fjölgar hægar en spáð var

Öryrkjum hefur fjölgað hægar eftir hrun en reiknað var með.
Öryrkjum hefur fjölgað hægar eftir hrun en reiknað var með. mbl.is/Ómar

Öryrkjum hefur ekki fjölgað eins mikið eftir hrun eins og búist var við. Þetta birtist m.a. í því að bætur sem greiddar eru samkvæmt lögum um félagslega aðstoð verða lægri á þessu ári en reiknað var með.


Öryrkjum hefur fjölgað ár frá ári næstum alls staðar á Vesturlöndum síðustu áratugina. Reyndar hefur þeim fækkað í Svíþjóð, en það gerðist vegna kerfisbreytinga.


Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar, sagði að
vegna kreppu og aukins atvinnuleysis hefði verið reiknað með að öryrkjum myndi fjölga hraðar en áður. Menn hefðu undirbúið sig undir þetta. „Það hafa verið gerðar breytingar á kerfinu sem grípa fólk með öðrum hætti. Það  er búið að lengja í atvinnuleysisbótum. Það hefur lengi verið talið að það sé ekki heilsusamlegt að vera lengi atvinnulaus og það geti leitt til örorku. Nú er búið að lengja í atvinnuleysisbótum í fjögur ár þannig að sá hópur sem þar er og kæmi hugsanlega á örorkubætur vegna afleiðinga kreppunnar er ekki kominn hingað og kemur vonandi ekki til okkar,“ sagði Sigríður Lillý.


Hún sagði að einnig væri búið að breyta verklagi með þeim hætti að fólk kæmi seinna á örorku. Það væri orðið skilyrði fyrir greiðslu örorkubóta að fólk sé áður búið að nýta önnur úrræði eins og sjúkrasjóði. Þetta leiddi af sér að tímabundið kæmu færri inn á örorku, en hún sagðist því allt eins eiga von á að örorkuþegum fjölgaði hraðar á næsta ári.


Sigríður Lillý sagði að TR hefði verið að beina þeim sem væru að fá endurhæfingarúrræði inn á raunhæf endurhæfingarúrræði í samstarfi við VIRK-endurhæfingu og fleiri aðila. „Ég held að megi segja að það sé búið að vinna heilmiklar úrbætur á þessu sviði hjá öllum sem að þeim koma. Menn áttuðu sig strax á því að kreppan gæti leitt til alvarlegrar stöðu og hraðari fjölgunar öryrkja. Sérstaklega óttuðumst við að við myndum missa mikið af ungu fólki inn á örorku sem yrðu svo ekki aftur virkir samfélagsþegnar þegar kreppunni lyki. Það var sem betur fer gripið til aðgerða sem hafa skilað árangri.“

Í hópi öryrkja er fólk sem á ekki heima þar

Sigríður Lillý sagði þörf á að gera breytingar á kerfinu. „Í hópi öryrkja er fólk sem á ekki heima þar. Þetta er fólk sem á að njóta annarra úrræða. Þetta er fólk sem lendir í eins konar öryrkjagildru. Það eru kerfisbreytingar sem þarf að koma til samhliða aukinni endurhæfingu til að leysa upp þessar gildrur.“


Sigríður Lillý sagði að hún væri t.d. að tala um fólk sem lenti tímabundið í erfiðleikum og erfiðum lífsaðstæðum. Einstæður mæður, sem væru undir miklu álagi, gætu orðið veikar sem leiddi til tímabundinnar örorku. Kerfið væri hins vegar þannig að þessi tímabundna örorku leiddi oft til varanlegrar örorku vegna þess að ekki væri unnið markvisst í því að koma fólki út á vinnumarkaðinn eftir að mestu erfiðleikarnir væru að baki. „Inn í örorkukerfinu okkar eru ýmsar greiðslur sem fylgja börnum. Meðan börnin eru heima geta þær hugsanlega búið við sæmileg fjárhagsskilyrði, en þegar börnin eru farin að heiman sitja mæðurnar eftir í gildrunni. Þetta er alveg sérstakt fyrir íslenska kerfið.“

Framlög til lífeyristrygginga ofáætluð


Samkvæmt fjáraukalögum sem samþykkt voru í síðustu viku verða framlög vegna lífeyristrygginga um 2,4 milljörðum minni en reiknað var með í fjárlögum. Sigríður Lillý sagði að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem áætlun um lífeyristryggingar hefði verið of há. Á þessu væri ýmsar skýringar, en ein ástæðan væri sú að búið væri að vinna mikið í því að stuðla að því að fólk fengi réttar bætur svo að ekki væri verið að krefja fólk um háa endurgreiðslu um mánaðamótin júlí/ágúst eins og gerst hefur á hverju ári.
Hún sagði að þetta eftirlit væri sífellt í gangi og hún sagðist gera sér vonir um að krafist yrði endurgreiðslu á mun lægri upphæð á næsta ári en í
ár.


Lögum var breytt í upphafi árs þannig að nú eru kröfur TR aðfararhæfar sem þýðir að stofnunin er í sterkari stöðu að innheimta bætur sem hún hefur ekki getað skuldajafnað.

Sigríður Lillý Baldursdóttir.
Sigríður Lillý Baldursdóttir. mbl.is/Jim Smart
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert