Sótt að höfundarétti blaðamanna

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. mbl.is

Samtök blaðamanna í Evrópu fordæma tilraunir útgefenda til að ganga á höfundarétt blaðamanna. Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir að þó að greiðslur fyrir höfundarétt séu ekki háar séu þær mikilvæg viðurkenning á rétti blaðamanna.

Hjálmar sótti um helgina fund Samtaka blaðamanna í Evrópu sem haldinn var í Thessaloniku á Grikklandi. Hann segir að í flestum nágrannalöndum okkar, að Bretlandi og Írlandi undanskildu, sé höfundaréttur blaðamanna vel tryggður. „Meginreglan er að um þennan rétt sé samið hjá þeim sem eru starfandi á ritstjórnum. Þetta eru ekki háar greiðslur en þær fela í sér mikilvæga viðurkenningu á því að blaðamenn eru höfundar og það þarf að standa vörð um höfundarétt þeirra.“

Hjálmar segir að tæknivæðingar kalli á að menn finni leiðir sem tryggi höfundarétt blaðmanna. Hann segir að staða lausamanna sé talsvert verri en þeirra sem séu fastráðnir. Þrýst sé fast á þá að þeir selji greinar sínar í eitt skiptið fyrir öll og fái ekki greitt fyrir endurbirtingar.

Í ályktun fundarins í Thessaloniku eru tilraunir til að ganga á höfundarétt blaðamanna fordæmdar. Blaðamönnum sé gert erfitt fyrir að tryggja rétt sinn þegar efni þeirra sé notað oftar en einu sinni í ólíkum miðlum. Ekki megi þvinga blaðamenn til að afsala sér höfundarétti þó að efni frá þeim sé birt bæði á prenti og á netinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert