Telja sig hlunnfarna af Ístaki

Hús iðnaðarins er þekkt kennileiti í Kaupmannahöfn. Nú er verið …
Hús iðnaðarins er þekkt kennileiti í Kaupmannahöfn. Nú er verið að endurnýja það og stækka og breytist útlitið. www.di.is

Óánægju gætir meðal húsasmiða sem vinna á vegum Ístaks við endurbætur á Húsi iðnaðarins í miðborg Kaupmannahafnar. Þeir kvarta undan slæmri aðstöðu í vinnubúðum og telja sig hlunnfarna. Talsmaður Ístaks viðurkennir að húsnæðið sem þeim hafi staðið til boða sé lélegt en starfskjörin séu í samræmi við samninga og reglur í Danmörku.

Ístak tók að sér verkið sem undirverktaki til að skapa verkefni í vetur. „Þetta er lítið verk sem við tókum að okkur yfir háveturinn, í stað þess að segja upp þorranum af okkar trésmiðum,“ segir Hermann Sigurðsson, verkfræðingur hjá Ístaki.

Um fjörutíu menn eru við verkið, þar af um þrátíu íslenskir smiðir. Þeir fyrstu byrjuðu í október.

Ömurlegur aðbúnaður

Svo virðist sem hluti starfsmannanna hafi ekki áttað sig á því út í hvað þeir voru að fara. Megn óánægja kemur fram hjá tveimur sem Morgunblaðið ræddi við.

Vinnubúðirnar eru í gamalli heimavist í þorpi fyrir utan Kaupmannahöfn og segja að aðbúnaður þar sé ömulegur. Herbergin lítil og þar sem tveir gisti saman sé ekkert svigrúm fyrir einkalíf. Lítið sé um sameiginlegt rými. Nefnt er sem dæmi að ekki hafi allir aðgang að sjónvarpi í sínum hluta hússins. Kalt sé í húsinu, silfurskottur og köngulær og jafnvel hafi menn orðið varir við rottugang. Talsvert hafi borið á veikindum og telja sumir að það stafi af óheilnæmi umhverfi í húsunum.

Hermann Sigurðsson segir vita af óanægju með húsnæðið. Það sé frekar lélegt þótt ekki sé það alslæmt. „Þetta er það sem okkur bauðst. Við tókum því frekar en að sleppa verkinu,“ segir hann. Hann segir að fyrirtækið hafi láta rannsaka húsnæðið en ekkert komið út úr því sem bendi til að það sé heilsuspillandi. Þá hafi meindýraeyðir verið kallaður til.

Starfsmennirnir eru óánægðir með viðbrögð fyrirtækisins við umkvörtunum þeirra. „Það er komið fram við okkur hér úti eins og Pólverjana á Íslandi á sínum tíma,“ segir annar þeirra. Hinn segir þetta slæmt því Ístak sé ekki þekkt fyrir að koma illa fram við starfsfólk.

Langir dagar

Sá ókostur fylgir staðsetningu vinnubúðanna að það tekur rúma klukkustund að fara til vinnu á morgnana og lengri tíma að komast heim á kvöldin. Þannig hefur ferðatíminn í einstaka tilviki farið upp í tvo tíma og 40 mínútur. Þennan tíma fá þeir ekki greiddan. Annar maðurinn fullyrðir að honum hafi verið sagt í starfsviðtali að það tæki hálftíma að fara á milli. Því neitar Hermann, segir að alla tíð hafi verið ljóst að ferðin tæki klukkutíma. Það hafi þó gerst vegna veðurs og snjóa í Danmörku eins og víðar í Evrópu og erfiðleika í umferðinni að ferðin hafi tekið lengri tíma. Lítið sé við því að gera. Þá segir hann að starfsfólk fái ekki greitt fyrir að fara á milli heimilis og vinnustaður, hvorki hér á landi né í Danmörku.

Mennirnir þurfa að vakna upp úr klukkan fjögur á morgnana því rútan fer af stað tíu mínútum fyrir fimm til að ná til vinnustaðar fyrir klukkan sex. Þeir vinna síðan til klukkan að verða fimm og einu hléin eru 25 mínútna kaffipása á morgnana og 25 mínútna matarhlé í hádeginu og matarhléið segjast þeir þurfa að vinna af sér. Þeir eru ekki komnir í vinnubúðirnar fyrr en í fyrsta lagi klukkan sex og stundum ekki fyrr en á milli sjö og átta. Ekki sé mikill tími til að elda kvöldmatinn og koma sér í háttinn til þess að geta vaknað klukkan fjögur.

Ekki þvingaðir til vinnu

Starfsmennirnir telja að þeim sé greitt eftir dönskum verkamannatöxtum þó þeir séu smiðir, jafnvel húsasmíðameistarar. Þar koma til sögunnar fleiri atriði, til dæmis varðandi frítíma og dagpeninga og hvernig greitt er fyrir vinnu á laugardögum og matar- og kaffitíma. Félagi þeirra hefur verið í sambandi við danskt verkalýðsfélag og þeir hafa það eftir starfsmanni félagsins að starfskjör þeirra séu ólögleg.

Hermann segir farið eftir dönskum samningum. Smiðirnir sem vinni fyrir Ístak fái 130 danskar krónur á tímann, tæpar 2700 íslenskar, sem sé talsvert yfir lágmarkstöxtum í Danmörku fyrir vinnu af þessu tagi. Þá fái þeir mánaðarlega fríar ferðir heim, frítt húsnæði og fæði. Hann segir að fyrirtækið sé í góðu samstarfi við dönsk verkalýðsfélög og uppfylli alla samninga og reglur sem um þetta gildi.

„Við höfum upplýst menn um kaup og kjör og aðstæður. Ef menn eru óánægðir og finnst þetta ekki spennandi eru þeir ekki þvingaðir til að vinna fyrir okkur þarna,“ segir Hermann.

Starfsmennirnir telja að margir úr hópnum muni leggja mikið á sig til að losna við að fara út aftur eftir jólafrí. Hins vegar sé ekki mikla vinnu að hafa fyrir smiði og spurning hvort þeir verði ekki að taka þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka