Ögmundur Jónasson, dóms- og mannréttindamálaráðherra, hefur falið ríkissaksóknara að kanna hvort að lög hafi verið brotin með starfsemi öryggissveitar bandaríska sendiráðsins. Svör bandarískra stjórnvalda við spurningum ríkislögreglustjóra gefi tilefni til þess.
Starf öryggissveitar við bandaríska sendiráðið í Reykjavík brýtur ekki gegn íslenskum lögum svo lengi sem það takmarkist við sendiráðssvæðið. Ekki er þó hægt að fullyrða að íslensk lög hafi verið brotin við eftirlit sendiráðsins þar sem svör bandarískra stjórnvalda við spurningarlista ríkislögreglustjóra hafi verið ófullnægjandi. Þetta kemur fram í könnun ríkislögreglustjóra á starfseminni sem dómsmálaráðherra kynnti á blaðamannafundi nú fyrir stundu.
Engin gögn fundust í utanríkis- né dóms- og mannréttindaráðuneytinu um starf öryggisveitarinnar en í svörum bandarískra stjórnvalda kemur fram að slíkar sveitir hafi verið stofnaðar eftir mannskæða árás á sendiráð í Austur-Afríku árið 1998. Í svörum þeirra kemur þó ekki fram hvenær starfsemi slíkrar sveitar hófst hér á landi.