152 milljarða skattahækkun

Kristján Þór Júlíusson í ræðustóli Alþingis.
Kristján Þór Júlíusson í ræðustóli Alþingis. mbl.is/Ómar

Að teknu tilliti til þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á skattkerfinu frá miðju árinu 2009 og boðaðra breytinga á næsta ári má ætla að heildaráhrif allra tekjuaðgerðanna í fjárlögum ársins 2010 og frumvarpi ársins 2011 nemi um 152 milljörðum kr. Þetta segir Kristján Þór Júlísson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.

Kristján sagðist efast um að það sé rétt sem haldið hefur verið fram að þessi fjárlög sé erfiðasti hjallinn í þeirri vinnu að ná jöfnuði í fjárhag ríkissjóðs. Stjórnvöld hafa sett sér það markmið að ríkissjóður verði rekinn með hagnaði árið 2013. Kristján segir að enn eigi eftir að jafna 37 milljarða halla á fjárlögum. Þar fyrir utan séu útgjöld vegna Icesave. Þá liggi fyrir að spár um hagvöxt séu á niðurleið og fyrir liggi að tekjur af sköttum á þessu ári séu ekki eins miklar og reiknað hefði verið með.

Kristján sagði að sjálfstæðismenn legðu mikla áherslu á að ríkissjóður yrði sjálfbær. Það væri meginforsenda þess að hagkerfinu yrði aftur stýrt á rétta braut. Útgjöldum ríkissjóðs hefði verið leyft að vaxa nær hömlulaust undanfarin ár án þess að grundvöllur væri fyrir því til lengri tíma.

„Óhjákvæmilegur niðurskurður opinberra útgjalda er ekki auðveldur í framkvæmd, svo sem dæmi undanfarinna vikna sanna. Ástæðurnar má fyrst og fremst skýra með illa grunduðum tillögum og algerum skorti á samráði við hagsmunaaðila. Þá hafa stjórnvöld með nýjum álögum gengið langt í að þurrausa tekjumöguleika ríkissjóðs. Þess sér stað í samdrætti mikilvægra skattstofna, langt umfram áætlanir, og þeim fjármagns- og fyrirtækjaflótta sem vart hefur orðið við undanfarið. Verði ekki snúið af þessari braut er hætt við að ríkisstjórnin lokist inni í vítahring skattahækkana og niðurskurðar til að bæta upp dræmar vaxtarhorfur hagkerfisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert