Veiðar Íslendinga á þorski í íslenskri fiskveiðilögsögu hafa hlotið vottun sem byggist á ströngustu kröfum sem settar eru á alþjóðavettvangi. Vottunin staðfestir ábyrga fiskveiðistjórnun og góða umgengni um auðlindir sjávar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsstofu.
Segir að Fiskifélag Íslands, sem í séu helstu samtök hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi, hafi haft forgöngu um að byggja upp vottunarverkefnið á Íslandi, en það byggi á alþjóðlegum staðli. Leiðbeinandi reglum matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um vottun fiskveiða og siðareglum FAO um ábyrgð í fiskimálum.
Írska fyrirtækið Global Trust Certification, sem er óháð vottunarstofa sem hlotið hafi faggildingu samkvæmt ISO staðli, hafi verið fengið til að gera úttekt á stefnu og framkvæmd í þorskveiðum Íslendinga og hafi nú lokið þessara úttekt og gefið út vottorð sem staðfesti að þorskveiðarnar samræmist alþjóðlegum kröfum.
„Vottunin er mikilvæg fyrir íslenskan sjávarútveg sem fær nú staðfest að greinin mætir kröfum markaðarins um sjálfbæra nýtingu endurnýjanlegra auðlinda. Markmiðið með verkefninu „Iceland Responsible Fisheries“ er að efla bæði innra starf í greininni og kynningu erlendis á íslenskum sjávarafurðum. Gerður hefur verið samningur við Íslandsstofu um kynningu og markaðssetningu,“ segir í tilkynningunni.